148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

vinna íslenskra stjórnvalda vegna innleiðingar þriðja orkupakka ESB.

499. mál
[16:24]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör. Það er einmitt mjög mikilvægt í þessari umræðu að við fáum staðreyndirnar fram því að umræðan um þetta tiltekna mál hefur byggst held ég á töluverðri vanþekkingu á málinu og í fjölmiðlum hefur verið blásið upp eitthvert meint valdaframsal á orkuauðlindum landsins án þess að nokkur innstæða sé fyrir þeim fullyrðingum.

Það er raunar sorglegt að horfa upp á rótgróna, getum við sagt, stjórnmálaflokka og stjórnarflokka sem hér hafa verið við stjórnvölinn árum og áratugum saman nánast samfleytt, eins og Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, sem eru farnir að tala kerfisbundið niður samninginn um Evrópska efnahagssvæðið án þess að hafa nokkra hugmynd um hvert eigi að stefna, án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað endurskoðun á slíkum samningi eigi að fela í sér eða hvaða tækifæri yfir höfuð séu til endurskoðunar á þeim samningi. (Forseti hringir.) Þetta er mikilvægasti alþjóðasamningur sem Ísland hefur nokkru sinni gert og er undirstaða (Forseti hringir.) atvinnustarfsemi í landinu. Við eigum ekki að leggja hér upp í ferð án fyrirheits.