148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get svo sem ekkert annað sagt en að ég er ekki sannfærður um að þetta verði endilega til þess að ná tökum á þeim vanda sem hér er verið að lýsa, en það verður tilraunin auðvitað að leiða í ljós.

Mig langar í öðru lagi að spyrja hv. þingmann um aflastýringu en mér finnst af orðanna hljóðan, bæði nefndarálitinu og þeim ákvæðum sem þarna er verið að setja inn, að verið sé að slaka talsvert á klónni í stýringu veiðanna varðandi mögulegan heildarafla og það sé verið að gefa ákveðin vikmörk sem geti búið til verulegan þrýsting til aukinna aflaheimilda inn í kerfið. Ég velti fyrir mér: Hafði nefndin engar áhyggjur af því að þarna væri í raun og veru verið að losa talsvert tökin á fiskveiðistjórninni í þessu kerfi?