148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[17:56]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Það hefur verið til umræðu í atvinnuveganefnd síðan fyrir páska. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það hefði gjarnan mátt vera meiri tími til að fara í gegnum málið og það má eiginlega segja að þetta sé svona í annað skiptið á tveimur árum sem þetta mál hefur næstum því fallið á tíma en fyrir ári síðan reyndum við, ég og hv. formaður atvinnuveganefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, að koma með slíka breytingu á strandveiðikerfinu sem miðaði að því að bæta öryggi sjómanna sem stunda strandveiðar.

Meginuppleggið í þeirri vinnu sem við lögðum af stað með var að bæta öryggi sjómanna. Ég vona að okkur takist það. Við erum auðvitað gagnrýnd fyrir ýmislegt í þessu frumvarpi en ég held að þegar á heildina er litið séum við að taka skref í rétta átt. Nefndin hefur sammælst um það, og það kemur fram í greinargerð eða nefndaráliti frá nefndinni, að strax í haust verði tekin saman skýrsla um hvernig til hefur tekist, hvað við getum bætt og við vinnum það með trillusjómönnum og samtökum þeirra. Við reynum að ná eins langt og við getum til þess á endanum að bæta öryggi sjómanna og bæta meðferð aflans eins og er markmið okkar allra sem látum okkur strandveiðar varða og teljum að strandveiðar skipti máli fyrir byggðirnar, fyrir fiskmarkaðina og fyrir fiskvinnsluna í landinu. Þetta er það sem ég hef haft að leiðarljósi við þessa vinnu.

Við fengum fjölmargar umsagnir, þær voru auðvitað mjög á einn veg eins og hér hefur komið fram. Með þessu frumvarpi er verið á þessu sumri, í strandveiðum sem hefjast núna 1. eða 2. maí, að bæta um 25% meiri þorskveiðiheimildum í kerfið með því í fyrsta lagi að taka ufsann út úr þorskígildunum sem hver bátur má koma með að landi á hverjum degi, en ufsinn var u.þ.b. 5% af aflanum á síðasta ári og síðustu ár. Svo fer kvótinn úr 9.200 tonnum í 10.200 og síðan er bætt við 1.000 tonnum úr línuívilnun sem hefði að öðru leyti fallið niður. Þannig erum við að sýna fram á að kerfið er sveigjanlegt með aflaheimildir innan þessara 5,3%, sem stundum er kallað félagslegt kerfi smábáta en er auðvitað bara alvörukerfi atvinnumanna á sjó, og að kerfið geti mætt þeim breytingum sem urðu þegar minnkaði í línuívilnun vegna þess að færri beittu í landi og bátum fækkaði, ég er ekki með þær tölur algjörlega skráðar hjá mér.

Mér finnst mikilvægt að kerfið geti verið sveigjanlegt innan ársins, það geti verið lifandi og við getum fært til eða frá afla sem annars hefði fallið niður dauður innan fiskveiðiársins og það er engum til góðs. Við höfum séð það á undanförnum árum að ufsinn hefur ekki náðst og ég veit að margir trillusjómenn eru mjög óhressir með það en með þessari breytingu komum við aðeins til móts við þá. Fyrir þessa breytingu, nái hún fram að ganga, þá voru 80% af ufsaaflanum tekin í svokallaðan VS-afla. Sú breyting verður með þessum lögum að þetta verður 80/20 eða 80% til útgerðar, þar sem uppboð á fiskmörkuðum og annar tiltekinn kostaður er dreginn frá og því skipt á milli. Þótt margir hefðu viljað hafa þetta 100% þá er þetta alla vega gott skref og til þess fallið að auka góða umgengni um sjávarauðlindina. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að við höfum það í huga. Svo vitum við það líka að sjómenn hafa stundum farið á sjó og sett í mikinn ufsa og síðan kannski á landleiðinni þá hefur komið mikið þorskrek og þá lenda menn í vandræðum með ufsann. Það viljum við stöðva og ég held að með þessu frumvarpi séum við að koma til móts við það.

Það eru jákvæð skref stigin hér og öll góð mál hafa sinn tíma. Það kemur hérna skýrt fram að markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að auka öryggi smábátasjómanna með því að tryggja ákveðinn dagafjölda til veiða í hverjum mánuði, það er auðvitað líka umdeilt. Í þeirri vinnu sem farið hefur fram í nefndinni og í þeim gögnum sem við höfum aflað okkur núna á tveimur árum þá liggur það alveg ljóst fyrir að þeir sem hafa verið okkur til ráðuneytis, þeir sem við leitum til, Landssamband smábátaeigenda og ráðuneytið sem við vinnum mjög þétt með í þessu máli, telja það vera alveg afdráttarlaust og það hefur komið fram allan tímann, í allri vinnunni, að það séu nánast allar líkur á því að 11.200 tonn af þorski fyrir u.þ.b. 600 smábáta — það er fjöldinn sem hefur að meðaltali verið að veiðum undanfarin ár samkvæmt þeirri töflu sem ég hef hér, þeir eru auðvitað alveg upp í 700 en á síðasta ári voru þeir 604 — eigi að duga, verði veiðarnar stundaðar með þeim eðlilega hætti að hver og einn stundi þetta frá sinni heimabyggð og svæðin haldi sér og gæftir verði eins og eðlilegt er á Íslandi yfir þennan tíma.

Við höfum fengið mikla gagnrýni fyrir það að 48 dagar eða 12 dagar í mánuði muni ekki duga á mörgum svæðum. Það má vera að í einhverjum tilfellum geti það gerst. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá Landssambandi smábátaeigenda, og má sjá á heimasíðu þeirra, kemur fram að á síðasta ári, árið 2017, þar sem 604 smábátar stunduðu strandveiðar við Ísland í fjórum hólfum, voru 23 af þessum 604 bátum á sjó í meira en 48 daga, 23. Það kemur líka fram í þessari skiptingu að það er alveg ljóst að það er enginn bátur á A-svæði sem fer nokkru sinni fram yfir 12 daga. Það er samdóma álit þeirra smábátasjómanna sem ég hef haft samband við eða hafa haft samband við mig að fyrra bragði í ánægjulegum og góðum samskiptum, að á það svæði hefur vantað töluverðan afla. Þeir hafa jafnvel verið með hugmyndir um að öll viðbótin færi bara þangað og, eins og einn sagði: Látið okkur svo bara í friði. Það ríkir nokkuð almenn sátt um það að það þurfi að auka á svæði A.

Ég hef líka upplýsingar um það að í einstökum byggðarlögum hafi trillusjómenn nýtt þetta mjög lítið. Það er hollt í umræðunni að halda því til haga að það er kannski einhvers staðar líka ekki svona mikill atvinnumennskubragur á hlutunum þó að auðvitað inn á milli séu útgerðarmenn á smábátum að stunda þessar veiðar af miklum krafti og þrótti allt tímabilið og nýta hverja einustu glufu sem gefst til veiða. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hér voru á Akranesi 12 bátar á strandveiðum síðasta ár, á síðasta sumri, árið 2017. Þeir fóru samtals 310 daga á sjó. Það er að jafnaði 25,8 dagar á bát. Hér erum við að tala um 48 daga sem menn geta valið úr. Það er mikil viðbót fyrir nær allan flotann. Það voru reyndar tveir bátar þar sem fóru 45 og 46 daga á sjó á síðasta ári, einhverjir fóru 20 daga, aðrir fóru minna og svona hygg ég að þetta sé nú nokkuð víða.

Við höfum lagt upp úr því að kerfið sé fyrir alla. Þess vegna er það nú kannski þannig að dagarnir eru misjafnlega nýttir en sannarlega er það þannig með kröftuga og öfluga sjómenn að þeim duga auðvitað aldrei annað en allir blíðviðrisdagar til veiða þegar kakklóðar á öllum boðum og hraunum. Það er eðli fiskimannsins. Við þurfum auðvitað að glíma við það kapp hér líka og róa það aðeins. Mér finnst líka skipta miklu máli þegar við erum að ræða þessi mál að nú gefist tækifæri til þess að velja 12 bestu dagana í hverjum mánuði af þessum 16 sem eru kannski til umráða, þ.e. mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur, hina þrjá dagana er ekki leyft að veiða. Það hafa komið auðvitað fram ítrekaðar óskir frá sjómönnum um að það verði opnað fyrir þá daga. Við ræddum þetta í nefndinni og fengum upplýsingar um það að m.a. frá aðilum frá fiskmörkuðunum að það er í rauninni allt kerfið lokað yfir sumartímann, allt flutningskerfið, uppboðskerfið, landanir. Það er gríðarleg keðja sem fer í gang og er í gangi alla vikuna, allan veturinn, alla daga. Það eru ýmis sjónarmið í því sem við þurfum þá að skoða ef við ætlum í frekara samstarf við sjómenn um þetta í haust.

Það sem mér finnst skipta gríðarlega miklu máli í þeirri vinnu sem er fram undan er að 25% aukning í strandveiðunum muni duga í þessa 48 daga fyrir flotann. Mér finnst mjög mikilvægt að við göngum út frá því. Við höfum upplýsingar sem segja okkur að þetta muni ganga upp að öllu jöfnu. Ég vona að það geri það. Við þurfum auðvitað að vinna þannig saman að það gerist. Þannig er það með öll kerfi. Þau eru ekki bara með einstefnuloka, þar sem allir fara á eitt svæði og klára þetta allt saman einn, tveir og bingó. Þannig gengur það ekki upp. Það væri ekki gott ef þannig myndi fara. Við þurfum að standa saman um að halda áfram að taka rétt skref í þessu máli og hagsmunirnir munu alltaf á endanum verða fyrir byggðirnar og fyrir sjómanninn.

Ég held að það sé líka annað sem við þurfum að skoða í þessu sambandi og tengist þessu auðvitað. Það eru tímasetningarnar á veiðunum á svæðunum. Hringinn í kringum Ísland er fiskigengd mismunandi. Hún fer mismunandi af stað og á þessum fjórum svæðum hentar ekki endilega að allir byrji 1. maí að veiða eða 2. maí. Það er alveg vitað að á svæði D myndi henta mun betur að hefja veiðarnar 1. apríl, þá myndi það svæði vera líklegra til þess að ná þeim aflaheimildum sem það hefur átt til strandveiða á undanförnum árum. Frá árinu 2009 og til þessa dags þá hefur það svæði aðeins í tvígang náð að veiða og landa öllum þeim afla sem í boði hefur verið. Við þurfum að koma til móts við þessi sjónarmið. Þorskurinn kemur á eftir loðnunni og við þurfum að veita sjómönnum á D-svæðinu tækifæri til þess að veiða hann á þeim tíma sem hann gefur sig. Nákvæmlega sama þarf að gerast á svæði C og að hluta til á svæði B. Þar er klukkan svolítið seinni og kæmi þeim örugglega betur að hefja veiðar 1. júní og vera út september. Ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum að skoða mjög nákvæmlega þegar við gerum þetta sumar upp, sumar sem ég vona að verði sjómönnum til heilla og það komi í ljós að við séum að taka rétt skref inn í framtíðina fyrir sjómennina.

Þessi kvóti hefur verið hugsaður til að styrkja innviðina á hinum dreifðu byggðum, til þess að styrkja fiskmarkaðina og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir smábátaútgerð að fiskmarkaðirnir lifi. Magnið hefur minnkað sem hefur komið inn á fiskmarkaðina og það er mjög mikilvægt að aflanum sem liggur á lausu sé landað þannig, að myndun verðsins verði rétt og meðferð afla og vigtun fari samkvæmt reglum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að við séum að stíga skref til þess að bæta þetta kerfi. Þetta er örugglega ekki nóg. Það munu margir gagnrýna það en við skulum gefa okkur það tækifæri að nota þessa fjóra mánuði til þess að læra vel af því. Setjast svo niður saman í haust, bætum úr þeim agnúum sem fram koma og höldum áfram þeirri mikilvægu vinnu að bæta strandkerfið, bæta strandmenninguna og virðinguna fyrir auðlindinni.