148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga.

14. mál
[19:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðalatriðið var fyrir mig að koma hingað upp og fagna annars vegar þessari tillögu og þeim einhug sem er að baki áliti nefndarmanna og hins vegar að nota tækifærið og nefna eitt mál og athuga hvert álit hv. framsögumanns er á því. Hér er verið að tala um leiðir til að tryggja ákveðna hagkvæmni í opinberum fjárfestingum, enda renna réttilega miklir fjármunir til opinberra fjárfestingarverkefna á ári hverju. Hið sama má segja um þá fjármuni sem renna til opinbers rekstrar. Ef við tökum t.d. heilbrigðiskerfið sem dæmi þegar um er að ræða einkarekstur þá liggja að baki þjónustusamningum kröfulýsingar þar sem kveðið er á um hvernig nýta eigi fjármagnið. Kostnaðargreining á rekstri opinberra aðila, þ.e. sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og annarra, heilsugæslustöðva eftir atvikum, hefur hins vegar ekki gengið í gegn þrátt fyrir að töluvert sé um liðið síðan menn fóru að tala um það fyrst.

Ég velti fyrir mér hvort það sé einhver leið að mati hv. framsögumanns, sem hefur verið að skoða þetta mál út frá opinberum fjárfestingum, til að nýta þá hugmyndafræði sem hér er að baki til að tryggja betur hagkvæmni í opinberum rekstri.