148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar sagði hæstv. heilbrigðisráðherra að ríkisstjórnin væri mætt til að bjarga heilbrigðiskerfinu, hvorki meira né minna. Fyrstu verk ríkisstjórnarinnar benda til þess að ráðherra hafi verið fullborubrött og ég fullbjartsýnn.

Við framlagningu fjármálaáætlunar gaf ríkisstjórnin eftir tugmilljarða króna. Þótt vissulega sé boðuð aukning í fjármálaáætlun er það engan veginn nægilegt. Viðbótarfé til sjúkrahúsþjónustu dugar rétt til að mæta fjölgun ferðamanna og öldrun þjóðarinnar. Víða er meira að segja farið að molna undan undirstöðunum og voru þær fúnar fyrir. Fjármálaráðherra segir ekki svigrúm til að mæta réttmætum kröfum ljósmæðra. Ríkisstjórnin virðist áhugalaus um að tryggja samninga við þær varðandi heimahjúkrun. Samningar við Krabbameinsfélagið sem sinnir skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi rennur út í sumar. Fyrirtækið Karitas sem hefur sinnt hjúkrunarþjónustu fyrir fólk með langvinna og ólæknandi sjúkdóma mun þurfa að loka í haust. Hjúkrunarheimili hafa ekki nægt rekstrarfé og sjúkraflutningar eru í óvissu. Ungir fíklar eiga erfitt með að fá viðeigandi meðferðarúrræði og hundruð skjólstæðinga Hugarafls lifa í óvissu þar sem ekki tekst að öngla saman 55 millj. kr. til að tryggja þá þjónustu. Sömu sögu er að segja um Geðheilsu – eftirfylgd.

Herra forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra vill vel, en fer ekki að verða fullreynt að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn um stórsókn í heilbrigðismálum? Gott opinbert heilbrigðiskerfi er ein dýrmætasta sameign sem nokkur þjóð getur eignast. Því biðla ég til hv. þingmanna að leggjast nú á árar með ráðherra og gera þær breytingar á tekju- og gjaldaliðum fjármálaáætlunar sem duga fyrir þessari boðuðu stórsókn.