148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

[15:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Þörfin fyrir utanspítalaþjónustu og þörfin fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu á vettvangi fer vaxandi. Því vil ég byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að taka vel í og samþykkja þessa sérstöku umræðu um utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga.

Mikilvægi, hlutverk og áskoranir í utanspítalaþjónustu hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár. Íbúum er að fjölga um allt land og mun fleiri ferðamenn sækja landið heim. Fólk er því mun dreifðara um okkar víðfeðma land að stunda fjölbreytta iðju í atvinnu eða afþreyingu. Að sjálfsögðu fjölgar þetta þeim atvikum þar sem eitthvað óvænt eins og slys og veikindi koma upp fjarri sjúkrahúsum. Sjúkrahúsin og heilsugæslan hafa ekki jafn fjölbreytta starfsemi og áður var og með vaxandi sérhæfingu í bráðameðferð verður getan til þess að takast á við slys og bráð veikindi víðs vegar um landið minni. Þessi þróun á sér ekki bara stað á Íslandi. Löndin allt í kringum okkur þekkja þessar áskoranir, að sinna heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum.

Því hefur átt sér stað mikil og hröð þróun við að veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu strax á vettvangi sem fyrsta snerting sjúklinga við heilbrigðiskerfið. Hvernig og hversu fljótt sú þjónusta er veitt getur skipt sköpum fyrir lífslíkur og lífsgæði þeirra veiku og slösuðu. Það skiptir líka máli hversu fljótt viðkomandi kemst svo inn á sjúkrahús til frekari meðferðar. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þessi málaflokkur hafa fengið almennt litla athygli hjá stjórnvöldum og má jafnvel segja að hann hafi gleymst á köflum. Það er ekki í boði lengur. Kannski er ástæðan sú að okkar öfluga fólk sem sinnir þessum störfum, mætir alltaf boðið og búið á vettvang þegar hringt er í 112 með sína hugsjón að vopni, þess vegna finnst öllum þetta kerfi virka.

Eins og staðan er í dag þá höfum við yfirlækni utanspítalaþjónustu einungis í 50% stöðugildi. Fagráð sjúkraflutninga hefur ekki burði til að sinna því hlutverki sem því er ætlað, það er án fjárheimilda og þar á enginn rekstraraðili úr dreifðum byggðum sæti. Sjúkraflutningaskólinn er eitt stöðugildi og svo er til fullt af skýrslum en engin stefna. Það vantar öfluga og heildstæða umgjörð.

Virðulegi forseti. Það er hægt að gera svo miklu, miklu betur í þessum málaflokki hér á landi og það er það sem við ætlum að gera. Við verðum að setja utanspítalaþjónustuna á sama stall og aðra sérhæfða heilbrigðisþjónustu með gerð stefnumörkunar. Í þeirri stefnumörkun þarf að taka á skipulagi og utanumhaldi þessarar þjónustu, gæðamálum er varðar skráningar, menntun og þjálfun og öryggi starfsmanna, nýtingu nýjustu tækni og búnaðar. Við þá stefnumörkun höfum við fyrirmyndir í löndunum allt í kringum okkur sem rétt er að nýta. Einnig þarf að tryggja að hlustað sé á fjölbreyttar raddir þeirra sem sinna þessari þjónustu í dag. Hér væri hægt að halda sérstaka ræðu um hvert og eitt þessara atriða.

Ég vil sérstaklega nefna tvennt sem gæti fleytt okkur langt áfram í átt að því að bæta þjónustuna og tryggja öllum landsmönnum bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Annars vegar að setja á fót stofnun eða miðstöð til þess að halda utan um málaflokkinn og vinna að gæðamálum og samræmingu þjónustunnar um allt land, miðstöð utanspítalaþjónustu. Hitt er ekki minna mikilvægt en það er að taka upp notkun á sérhæfðri sjúkraþyrlu sem yrði mönnuð með sérhæfðum lækni og bráðatækni auk flugmanna. Öll þau lönd sem við viljum bera okkur saman við nýta sjúkraþyrlur til að koma sérhæfðri heilbrigðisþjónustu fljótt og örugglega á vettvang til að tryggja að sérhæfð meðferð hefjist sem fyrst. Stuttur viðbragðstími og sérhæfð meðferð á vettvangi skipta sköpum í alvarlegum slysum og þeim veikindum þar sem bráð truflun verður á starfsemi öndunarfæra, hjarta og blóðrásar eða heila eins og við kransæðastíflu og heilablóðfall. Sjúkraþyrla með sérhæfðri áhöfn myndi verða mikil styrking við það viðbragð sem við höfum í dag, þá myndi líka fækka þeim tilfellum þar sem viðbragðsaðilar færu úr héraði meðan flytja þyrfti sjúkling á sjúkrahús. Þyrlan mun ekki koma í staðinn fyrir neinn sjúkrabíl heldur styrkja þá starfsemi, draga úr álagi og tryggja betra viðbragð.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Er sérstefnumörkun um utanspítalaþjónustu í sjúkraflutningum væntanleg? Eru einhverjar breytingar fyrirhugaðar á skipulagi og utanumhaldi málaflokksins eins og breytingar á samsetningu fagráðs sjúkraflutninga, að auka við stöðugildi yfirlæknis í utanspítalaþjónustu eða að stofna sérstaka miðstöð um utanspítalaþjónustuna? Er verið að vinna eftir þeim skýrslum og úttektum sem gerðar hafa verið undanfarin ár á vettvangi utanspítalaþjónustu um skipulag málaflokksins, menntun starfsfólks og notkun sérhæfðrar sjúkraþyrlu? (Forseti hringir.) Er fyrirhugað að taka upp tímabundið prufuverkefni um að starfrækja sérhæfða sjúkraþyrlu (Forseti hringir.) sem lið í því að tryggja landsmönnum aðgengi að bestu fáanlegri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu?