148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[16:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir fögnuð og árnaðaróskir hér. Þetta eru mikil tímamót í málefnum fatlaðra, sjálfsagt ein þau stærstu sem við höfum séð um árabil, ef ekki áratugaskeið. Að sönnu erum við bara í 2. umr. hér en ég treysti því að við ljúkum þessu máli alla leið. Þetta eru vissulega mikil tímamót, gríðarlega gott starf sem velferðarnefnd vann og auðvitað gríðarlega mikið og gott starf sem liggur að baki um langt árabil, allt frá því að starfshópur var settur af stað á vegum þáverandi félagsmálaráðherra Eyglóar Harðardóttur 2014 undir forystu Willums Þórs Þórssonar sem nú er í þingsalnum. Það ber að þakka allt það góða starf sem hér hefur verið unnið í gegnum þessi ár og ánægjulegt að sjá að þetta mál er að komast á leiðarenda núna.