148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

matvæli og dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

330. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr (eftirlit, upplýsingagjöf) frá atvinnuveganefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert Ólafsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands, Halldór Runólfsson frá Dýralæknafélagi Íslands, Árnýju Sigurðardóttur og Jón Ragnar Gunnarsson frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Jón Gíslason og Viktor Stefán Pálsson frá Matvælastofnun, Lárus M.K. Ólafsson fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu, Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins og Jón Kristin Sverrisson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Félagi atvinnurekenda, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Matvælastofnun, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum atvinnulífsins. Áttum við góðan fund með öllum þessum aðilum.

Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til nýrra heildarlaga um Matvælastofnun, 331. mál, sem kemur hér á eftir. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um matvæli og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og er markmið þess að samræma eftirlit og upplýsingagjöf eftirlitsaðila.

Tilefni þess að frumvörpin eru lögð fram eru ábendingar í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um Matvælastofnun frá árinu 2013 og sömuleiðis í skýrslu frá árinu 2017 sem var unnin af atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Samkvæmt gildandi lögum fara heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, sem eru samtals tíu á landsvísu, og Matvælastofnun með eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla. Samkvæmt 22. gr. laga um matvæli fer Matvælastofnun með yfirumsjón, þ.e. samræmingu matvælaeftirlits, og skal sjá um vöktun og rannsóknir. Í frumvarpi þessu er lagt til að heilbrigðisnefndir skrái og birti upplýsingar með sama hætti og Matvælastofnun.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpi þessu er að í a-lið 1. gr. er lagt til að eftirlitsaðilum verði heimilt að draga úr tíðni eftirlits hjá matvælafyrirtæki sem hefur vottun frá faggiltum aðila um að innra eftirlit þess uppfylli kröfur laga og reglna. Þá er í b-lið 1. gr. kveðið á um að eftirlitsaðilar flokki fyrirtæki eftir frammistöðu samkvæmt niðurstöðum úr eftirliti og setur ráðherra nánari ákvæði í reglugerð um slíka flokkun. Flokkun er ætlað að hafa áhrif á mat á eftirlitsþörf viðkomandi fyrirtækis og vera hvatning um vönduð vinnubrögð þar sem eftirlit mun dragast saman og eftirlitsgjöld lækka. Gert er ráð fyrir að heilbrigðisnefndir taki upp sams konar flokkun og birti upplýsingar um matvælaeftirlit með sama hætti og Matvælastofnun og opinberir eftirlitsaðilar vinni því eftir sama áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfi.

Samkvæmt c-lið 1. gr. skulu Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir halda sameiginlega fundi minnst tvisvar á ári og er tilgangur ákvæðisins að tryggja aðkomu heilbrigðisnefnda, að samstarfsráði Matvælastofnunar samkvæmt frumvarpi til nýrra heildarlaga um stofnunina.

Í frumvarpinu er lögð til breyting sem tekur gildi síðar en önnur ákvæði. Hún felst í því að birtar verði opinberlega upplýsingar um flokkun og frammistöðu fyrirtækja, auk þess sem heimilt verði að birta eftirlitsskýrslur sem flokkun byggir á.

Nefndin leggur til breytingartillögu við frumvarpið þannig að það nái einnig til breytinga á lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Lagt er til að nýtt ákvæði bætist við frumvarpið þess efnis að kveðið verði á um að Matvælastofnun fari með stjórnsýslu og opinbert eftirlit samkvæmt þeim lögum. Breytingartillagan er lögð fram til að umsjónar- og eftirlitshlutverk stofnunarinnar verði skýrt en samkvæmt gildandi lögum sinnir stofnunin ákveðnum þáttum hvað stjórnsýslu varðar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Við bætist nýr kafli, III. kafli, Breyting á lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, með síðari breytingum, með einni nýrri grein, 6. gr., svohljóðandi:

Í stað 1. mgr. 3. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Matvælastofnun fer með stjórnsýslu og opinbert eftirlit samkvæmt lögum þessum.

Matvælastofnun er heimilt að fela öðrum stofnunum, sjálfstæðum stofum eða einstaklingum að annast tiltekin verkefni sem eru á verksviði Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum að því tilskildu að þau hafi viðeigandi faggildingu. Ráðherra skal mæla nánar fyrir um skilyrði framsals með reglugerð.

2. Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu (eftirlit, upplýsingagjöf).

Við afgreiðslu þessa máls í nefndinni var Inga Sæland fjarverandi, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu. Við undirrituð leggjum til að þetta nefndarálit verði samþykkt, formaður nefndarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, framsögumaður Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigurður Páll Jónsson og Álfheiður Eymarsdóttir.