148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

Matvælastofnun.

331. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá atvinnuveganefnd um frumvarp til laga um Matvælastofnun. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert Ólafsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands, Halldór Runólfsson frá Dýralæknafélagi Íslands, Maríönnu Helgadóttur og Runólf Vigfússon frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Árnýju Sigurðardóttur og Jón Ragnar Gunnarsson frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Jón Gíslason og Viktor Stefán Pálsson frá Matvælastofnun, Lárus M.K. Ólafsson fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu, Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins og Jón Kristin Sverrisson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Félagi atvinnurekenda, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Matvælastofnun, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum atvinnulífsins.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um Matvælastofnun. Samhliða því að þetta frumvarp er lagt fram er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, þ.e. 330. mál sem mælt var fyrir áðan.

Tilefni þess að frumvörpin eru lögð fram eru ábendingar í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um Matvælastofnun frá árinu 2013 og sömuleiðis í skýrslu frá árinu 2017 sem var unnin fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Matvælastofnun tók við af Landbúnaðarstofnun og varð til undir því heiti samkvæmt lögum nr. 167/2007. Á grundvelli þeirra laga voru matvælamál flutt til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Ýmis verkefni hafa á undanförnum árum verið færð undir stofnunina en í 2. gr. gildandi laga eru talin upp þau lög þar sem kveðið er á um eftirlit eða stjórnsýslu stofnunarinnar.

Í frumvarpi þessu er kveðið á um stjórnarfarslega stöðu Matvælastofnunar og hlutverk hennar, þar með talið ráðgjafarhlutverk gagnvart ráðherra, fræðslu til almennings og fleira. Það er nýmæli að stofnunin skuli vinna að aðgengi fyrir íslenskar afurðir að erlendum mörkuðum auk þess sem skipað verði samstarfsráð þar sem reglubundið samstarf og miðlun upplýsinga fari fram. Með því er ætlunin að auka gagnkvæman skilning.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Inga Sæland var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Undir álitið rita formaður nefndarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson framsögumaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigurður Páll Jónsson og Álfheiður Eymarsdóttir.