148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

kjör kvennastétta.

[10:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Í viðtali við Kjarnann ekki alls fyrir löngu sagði hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir að með Vinstri græna í ríkisstjórninni væru tveir valdaflokkar, en þetta væri öðruvísi ríkisstjórn af því að það væri sósíalisti við borðsendann og það væri kona við borðsendann. Það er öðruvísi. Það er áhugavert og þetta eru spennandi tímar. Ég skil þá eftirvæntingu sem hæstv. heilbrigðisráðherra lýsti í þessu viðtali.

En hvaða þýðingu hefur það í raun fyrir samfélagið og þau gríðarlega stóru verkefni sem fram undan eru og þarf að leysa? Núna á þessari stundu eru mér efst í huga kjör kvennastétta, kjör umönnunarstéttanna, ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga og kennara. Við vitum að þörf er á nýliðun í kennarastétt. Við vitum það líka að nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar fara frekar í önnur þjónustustörf eins og flugfreyjustarf.

Það er risamál að laga kjör kvennastétta, ekki bara þeirra stétta einna sem eiga þar beinna hagsmuna að gæta, þetta er ekki síður hagsmunamál samfélagsins alls til þess að við getum farið að efla og bæta menntakerfið okkar, velferðarkerfið o.s.frv.

Það er gríðarlega mikilvægt að þetta mál verði tekið föstum tökum. Að sýna forystu til að breyta kjörum kvennastétta er að mínu mati eitt mikilvægasta verkefni sem forsætisráðherra stendur frammi fyrir og getur beitt sér í. Það er algjört lykilatriði að beita sér í því efni, að nýta þá stöðu sem forsætisráðherra er í og beita sér til þess að efla kjör kvennastétta. Lykillinn að því að við eflum og ýtum undir kvennastéttirnar er að menntakerfið verði öflugra, að við verðum með öflugra þekkingarsamfélag, velferðarsamfélag. Þannig verðum við líka mennskara samfélag.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvernig ætlar forsætisráðherra að taka forystu um að efla kjör kvennastétta? Hvaða afgerandi áherslur og skilaboð ætlar hæstv. forsætisráðherra að setja inn í kjaraviðræðurnar? Hefur hæstv. forsætisráðherra rætt þetta mikilvæga mál, þetta brýna hagsmunamál, við hæstv. fjármálaráðherra? Ef svo er, liggur þá (Forseti hringir.) ekki fyrir aðgerðaáætlun í þessu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar?