148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

stefna í flugmálum og öryggi flugvalla.

[10:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Það er alveg rétt að flug hefur vaxið mjög mikið sem flugtengd starfsemi og var áætlað að hún væri 6–7% af landsframleiðslu í erlendri úttekt sem gerð var fyrir um tíu árum, en væri jafnvel orðin enn meiri en 10%. Talað hefur verið um 12–14% af landsframleiðslu í dag. Það eru teikn á lofti um að það geti vaxið enn frekar, m.a. vegna þess að Ísland er ákjósanlegur staður og samkeppnishæfni landsins og legan gera það að verkum að hér er ákjósanlegt að vera, menn geta flogið hingað og dreift sér síðan á aðra staði milli vesturs og austurs, auk þess sem ferðamannastraumur til Íslands hefur vaxið.

Ég vil halda því fram að við höfum staðið okkur býsna vel og hef fyrir því orð alþjóðaflugmálaeftirlits sem komið hefur hingað og tekið út stöðuna varðandi öryggismálin, flugverndina, í því hvernig við sjáum um þessi risastóru yfirráðasvæði sem við fylgjumst með og sinnum. En það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að innanlandsflugvellirnir hafa setið á hakanum. Þar getum við ekki lengur staðið hjá. Vegna þess að við höfum ekki sinnt þessum málaflokki nægilega vel í allt of langan tíma og líka vegna þess að mikilvægi þessa málaflokks hefur vaxið er það alger forsenda að við setjum okkur flugstefnu. Ég hef þegar hafið undirbúning að slíkri vinnu. Og af því að hv. þingmaður spurði hvort leitað væri til sérfræðinga hef ég m.a. átt fund með FÍA, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, og óskað eftir samstarfi við þá og fleiri aðila.

Varðandi það atvik sem kom upp um daginn þegar Keflavík lokaðist vegna snjókomu þarf annars vegar stærri hlöð á Egilsstöðum og Akureyri, sem kostar peninga, en það er líka hægt, eins og við höfum aðeins rætt hér áður, að nota dráttarbíla þar sem væri hægt að raða betur (Forseti hringir.) inn flugvélum á þessar brautir þannig að þær gætu afkastað meiru. Ráðuneytið skrifaði bréf til Isavia um leið og þetta gerðist. Mér hefur reyndar ekki borist það en mér er kunnugt um að það sé komið í ráðuneytið. Við munum án efa fara yfir þessi mál mun betur því að það er ástæða til þess.