148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

stefna í flugmálum og öryggi flugvalla.

[10:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er að mörgu að hyggja þegar kemur að þessu. Isavia hefur átt til að mynda ágætt samstarf við flugmálayfirvöld á Grænlandi vegna þess að þetta tengist því hvernig við getum tryggt það yfirflugseftirlit sem við höfum haft. Það eru alltaf aðrir aðilar sem hafa áhuga á að sinna þessu líka, ekki endilega vegna þess að hægt sé að hafa gríðarlegar tekjur af þessu, heldur snýst það miklu frekar um það hvernig hægt er að gera þetta á sem skynsamlegastan hátt. Það hefur svo sannarlega tekist á Íslandi. En það eru áskoranir fyrir hendi og ein af þeim er að fleiri sækjast í þetta.

Við höfum átt ágætt samstarf við ríkisstjórnina á Grænlandi á síðastliðnum misserum einmitt um það hvernig þeir geta vaxið og samstarf hefur verið á milli okkar og Grænlands. Það kom einmitt fram hjá hv. þingmanni að þetta snýst ekki eingöngu um íslensk flugfélög, ég held að það séu vel yfir 30 flugfélög sem fljúga til landsins. Þetta er miklu stærra mál en varðar bara flugfélögin okkar. En við erum í þessu alþjóðlega samstarfi. Við höfum staðið okkur vel, en við þurfum (Forseti hringir.) að hafa flugstefnu til þess að hafa skýra sýn inn í langa framtíð. Ég vil bara þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir að taka þetta málefni upp hérna.