148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[15:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er fínasta þingsályktunartillaga en ég hef nokkrar spurningar. Til að byrja með spyr ég um flutningsmenn. Er það ekki forsætisnefnd sem flytur þessa tillögu? Þá velti ég fyrir mér af hverju öll nöfnin eru talin upp í staðinn fyrir forsætisnefnd sem slíka. Við flettum þessu upp af því að það vakti athygli mína. Forsætisnefnd hefur áður flutt mál undir nafninu forsætisnefnd og því skil ég ekki alveg af hverju talin eru upp öll nöfn forsætisnefndarmanna.

Svo er annað. Það er nýtt þing og nýir þingmenn. Áður hefur verið bent á það að þegar nýtt þing tekur við þurfi nýtt þing og nýir þingmenn að gangast undir siðareglur, ekki bara kvitta undir þær eins og var t.d. gert núna. Það þarf að fara í ákveðið innleiðingarferli. Fólk þarf að vinna með að skilja og samþykkja siðareglurnar.

Í þriðja lagi: Þorum við að bregðast við brotum á siðareglum? Mér finnst það rosalega stór spurning. Það er það sem skiptir máli, ekki bara að siðareglurnar séu til heldur að farið sé eftir þeim og að eitthvað gerist þegar ekki er farið eftir þeim. Mér finnst það dálítið veigamikil spurning. Hvað gerist og hvernig bregðumst við við brotum, sérstaklega hvað þessa viðbót varðar? Þetta er umræða sem ég held að við þurfum nauðsynlega að taka. Hún er mjög alvarleg.