148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á 2. gr. siðareglna þingmann þar sem segir einmitt að reglur þessar gildi um alþingismenn við opinbera framgöngu þeirra og snerti skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa. Ég vil einmitt skilja þetta eins og hefur komið fram áður, t.d. hjá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, þannig að þetta eigi við miklu víðar en innan veggja þingsins. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði það líka í kynningu á þingsályktunartillögunni. Þetta varðar okkur alls staðar þar sem við komum, í búðinni eða sumarfríinu, erlendis og hvar sem við erum.

Mig langar einnig til að minnast á meginreglurnar um hátterni í b-lið 5. gr., með leyfi forseta:

„… taka ákvarðanir í almannaþágu.“

Sumir þingmenn eru einnig ráðherrar og ráðherrar hafa líka siðareglur, siðareglur ráðherra, og sem þingmenn og ráðherrar hljóta þeir að sinna hvoru tveggja, hljóta að skrifa undir siðareglur þingmanna líka. Ég vek athygli á því af því að ég hef borið upp nokkrar fyrirspurnir um siðareglur ráðherra og framfylgd þeirra á undanförnum misserum. Virðingin gagnvart þeim fyrirspurnum sem sést á svörunum sem ég hef fengið vekur ekki með mér mikla von um það gildi siðareglna sem þær eiga að hafa. Siðareglur eru gríðarlega mikilvægar en það er ekki nóg að það sé bara táknrænn gjörningur að skrifa undir siðareglur og gera síðan ekkert með þær.

Ég spurði t.d. fjármála- og efnahagsráðherra hvort það hefði farið fram mat á því hvort skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum varðaði almannahag enda er skýrt tekið fram í siðareglum ráðherra að ráðherra eigi að hafa frumkvæði að því að birta upplýsingar sem hann hefur sem varða almannahag, en það stendur líka í siðareglum þingmanna að hann eigi að taka ákvarðanir með almannahag að leiðarljósi. Ýmislegt í svörum ráðherra eftir þann atburð sem fólst í því að stinga þeirri skýrslu ofan í skúffu fyrir kosningar benti til þess að sú ákvörðun hefði ekki verið tekin með almannahag að leiðarljósi. Ég spurði þá hvort fram hefði farið mat á því hvort efnið hefði varðað almannahag eða ekki. Svarið var að skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hefði verið unnin að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra og að birting hennar hefði því verið algjörlega án utanaðkomandi kvaða eða mats á því hvort þær ættu við samkvæmt siðareglum.

Ég þarf í alvöru að anda mjög djúpt þegar ég les þetta því að þetta svar sýnir einfaldlega að það var viljandi horft fram hjá siðareglunum. Þær áttu ekki við í þessu tilviki þegar málið var að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra. Þá vil ég gera þessa tengingu með það sem hv. þingmenn hafa sagt hérna og spyrja hvort störf okkar hérna og siðareglurnar eigi bara saman þegar við erum að sinna nákvæmlega okkar skilgreindu kvöðum o.s.frv. en ekki þegar við gerum eitthvað að eigin frumkvæði, meira að segja þótt það sé í nafni okkar sem þingmanna eða ráðherra.

Þetta svar óháð athöfninni sem leiddi til þess finnst mér vera vanvirða við siðareglur bæði þingmanna og ráðherra og þess vegna hef ég áhyggjur, rökstuddar að mér finnst, af því að siðareglurnar séu sýndarmennska. Þær mega ekki vera það en dæmin sýna að þær eru virtar að vettugi. Eina leiðin til að við getum sýnt fram á að þær eigi að skila tilætluðum árangri er að láta þær virka og draga þá fólk til ábyrgðar. Þetta er rosalega mikilvægt til að senda þau skilaboð að siðareglurnar hafi merkingu sem við skrifum undir eins og var nefnt í ræðu áðan og við tökum þær inn í hjartað á okkur og inn í samviskuna. Ég myndi ekki vilja skrifa undir siðareglur sem færu gegn samvisku minni. Það er ekki tilgangur siðareglna. Ég myndi vonast til þess að siðareglurnar endurspegluðu þá siði sem ég stend fyrir og ég vonast til þess að það eigi við um fleiri. Við leggjum fyrir okkur þessar mjög góðu reglur, þessa viðbót við reglurnar, og ef við getum ekki skrifað undir þær eigum við ekki að gera það. Það er fyrsta skrefið í að fara eftir siðareglunum.

Við setjum okkur þau mörk sem við teljum okkur geta farið eftir. Það eru líka skilaboð um það sem við teljum okkur ekki geta farið eftir. Það getur vel verið að einhver sé ósáttur við að eitthvað sé ekki í siðareglum sem viðkomandi finnst að ætti að vera í siðareglum. Það er bara lærdómsferli. Fyrsta skrefið er að skrifa undir siðareglurnar samkvæmt eigin sannfæringu eins og með stjórnarskrárákvæðið.

Annað varðandi siðareglurnar er að það er forsætisnefnd sem hefur umsjón yfir kvörtunum vegna brota á siðareglunum og ég geri athugasemd við það. Ég sé ekki endilega aðra möguleika af því að að við erum mjög sjálfstæð í störfum okkar sem einstakir þingmenn með okkar umboð á þann hátt, en við búum líka við ákveðið umboðskerfi sem raðast eftir flokkum. Í því umhverfi erum við í ákveðinni sjálfsskoðun í forsætisnefnd þar sem ábending eða kvörtun varðar jafnvel flokksfélaga. Á sama tíma erum við sjálfstæð í störfum. Þarna á milli er skörun.

Annað dæmi sem við höfum er kjörbréfanefnd þar sem við erum að skera úr um okkar eigið umboð. Þannig aðstæður gætu komið upp, þótt þær hafi ekki gert það enn þá, að vafaatkvæði myndu breyta niðurstöðum kosninga. Það munaði ekki miklu á þessu þingi, ég sat í kjörbréfanefnd og það munaði einna fæstum atkvæðum hjá mér. Sama hvernig þau vafaatkvæði hefðu farið hefðu þau ekki getað valdið neinum breytingum en ef þau hefðu gert það væri ég vafalaust vanhæfur og í öðrum tilvikum myndi ég telja mig vanhæfan til þess að skera úr um eigið umboð. Við eigum ekki að vera sett í þá stöðu. Þetta skiptir nefnilega mjög miklu máli. Þegar kemur að ákveðnum siðareglum og framfylgd þeirra má ekki setja fólk í þá stöðu að þurfa að skera úr um hagsmunaárekstur. Til þess er einmitt hagsmunaskráning, til þess að láta vita af því fyrir fram. Ég held að við ættum að sinna því aðeins betur. Það eru líka ábendingar í GRECO-skýrslunni um að við sinnum því ekki nógu vel, við séum ekki nógu víðtæk hvað það varðar. Í framhaldinu vona ég að við gerum betur, en þetta er a.m.k. mjög gott skref.