148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég upplifði byrjunina á internetbyltingunni og þann möguleika sem fólk hafði síður áður fyrr, þ.e. að vera nafnlaust, geta hagað sér á ákveðinn hátt á samskiptavettvangi, ekki undir eigin nafni og ekki undir þeirri ábyrgð sem því fylgir. Það var ákveðið lærdómsferli sem maður gekk í gegnum. Þú hefur möguleikann á að gera hvað sem er án ábyrgðar. En þá ertu ekki lengur þú. Það var alla vega það sem mér fannst. Þó að hægt sé að spila einhverja persónu er það ekki ég. Eða er það ég? Mér finnst þetta vera í áttina að því sem ég var að lýsa áðan. Þú hefur möguleikann á að gera eitthvað en gerirðu það? Fylgirðu því eftir?

Það svarar því að nokkru leyti hver þú ert og hvert siðferði þitt er. Það er upplýsandi að einhverju leyti, það er sjálfsskoðun. Ég tók alla vega ákvörðun um að sama undir hvaða nafni ég væri á internetinu væri ég bara ég sjálfur. Mér finnst það áhugaverð hliðstæða við þessa umræðu um hvað ég er sem opinber persóna og hvað ég er í mínu einkalífi. Hvaða ákvörðun get ég tekið þegar ég er að skrifa undir siðareglur? Þær varða mig persónulega, ekki endilega bara sem opinbera persónu. (Forseti hringir.) Ég get ekki skrifað undir siðareglur sem ég get ekki farið eftir. Ekki bara ég sem opinber persóna heldur ég.