148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

kvikmyndalög.

465. mál
[16:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessi viðbrögð. Ég segi það satt að ég væri kannski ekki endilega að vekja máls á þessu ef staðreyndin væri sú að þetta hlutfall endurspeglaði áhuga kynjanna á þessum málum. Ég hef einfaldlega heyrt of margar sögur af konum sem hafa sótt um styrk til þessa ágæta sjóðs og fengið þau viðbrögð að þetta hafi verið gert áður. Það sem þá hefur verið gert áður er að konur hafi leikstýrt verki sem konur hafi leikið í og konur skrifað handritið. Mér finnst ástæða til að við skoðum þetta af fullri alvöru. Ég treysti því að hæstv. ráðherra mennta-, menningar- og íþróttamála grípi boltann og tek jafnframt áskorun hennar um að koma með hugmyndir að borðinu. Ég hlakka til að eiga það samtal.