148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni framsöguna og þakka fyrir það hvernig málið er lagt upp. Eins og þingmaðurinn kom ágætlega inn á þá hefur umræða um þessi mál allt of oft dottið í hatursfulla orðræðu gegn tilteknum trúfélögum og trúarhópum. Það er mikilvægt að við nálgumst þetta á aðeins málefnalegri hátt eins og hér er gert. Það er mjög eðlilegt að við tökum þessar reglur til endurskoðunar af því að þær spretta upp í allt öðru umhverfi en við búum við í dag.

Ég hjó t.d. eftir hugtakinu sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga í máli hv. frummælanda og það er nokkuð kúnstugt. Nú er ég ekki búinn að vera jafn lengi á þingi og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, en ég hef ansi oft orðið var við það að þegar ríkisvaldið hreyfir sig eitthvað í átt að sveitarfélögunum og sveitarfélögin sjá fram á einhvern kostnaðarauka vegna þeirra aðgerða, þá er oft minnst á þennan sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga.

Ég velti því fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi einhverja hugmynd um hvernig ástandið hafi verið þarna 1970 þegar ríkisvaldið ákvað einhliða að þarna væru lóðir sem væri hægt að gefa og það væri ríkisins að ákveða það. Hvað þótti sveitarfélögunum um það?

Svo af því að ég veit að þingmaðurinn er jafn mikill áhugamaður um útúrsnúninga og leiðindi og ég, þá langar mig að spyrja hvernig hann skilji upphafsorð 5. gr. laganna, sem eru, með leyfi forseta: „Sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna …“

Ekki sveitarfélögum, kaupstöðum og kauptúnum. Skilur hann þessi orð þannig að þessi lög nái til þéttbýlisstaða (Forseti hringir.) en ekki sveitarfélaga sem eru sveitir, dreifbýli?