148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Það ákvæði sem hér er mælt fyrir að verði fellt úr lögum hefur verið bitbein út af ákveðnum samfélagslegum ágreiningi. Líkt og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi í sinni góðu og ítarlegu yfirferð hafa sumir viljað túlka það þannig að sveitarfélögum sé einungis skylt að leggja þjóðkirkjunni til ókeypis lóðir og, nota bene, án takmarkana, á meðan aðrir vilja túlka það á þann veg að í ljósi jafnræðisákvæðis stjórnarskrárinnar, og þar sem þjóðkirkjan er ekki sérstaklega tilgreind í þessari 5. gr. laga um Kristnisjóð, leiði það til þess að ákvæðið taki til sambærilegs húsnæðis allra skráðra trúfélaga. Það er sú túlkun sem Reykjavíkurborg hefur til dæmis fylgt og hefur verið rætt hér.

Ég ætla ekki að fara nánar í hugleiðingar um túlkun þessa ákvæðis. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur gert það mjög vel og síðan hefur það verið nefnt hér í andmælum líka.

Mig langar að beina sjónum að þessari óþarflega íþyngjandi skyldu sem núgildandi lög um kristnisjóð leggja á herðar sveitarfélögunum, sér í lagi með tilliti til ákvæðis stjórnarskrár um sjálfstæði sveitarfélaga og ákvæðis 8. gr. sveitarstjórnarlaga um ákvörðunarrétt um ráðstöfun eigna sveitarfélaga, að hún sé í höndum sveitarfélaganna sjálfra.

Þannig ályktaði borgarráð Reykjavíkur, á fundi sínum 19. september 2013, að affarasælast væri að í framtíðinni sæktu trúfélög um og greiddu fyrir lóðir í landi borgarinnar líkt og aðrir aðilar sem sinna mikilvægri starfsemi. Í áliti borgarráðs segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er tímaskekkja að skylda sveitarfélög einhliða til að ráðstafa dýrmætu borgarlandi án endurgjalds til þeirra trúfélaga sem sækjast eftir því.“

Undir þetta var tekið af minni hluta borgarstjórnar sem og áskorun til Alþingis um endurskoðun laganna sem komið hefur verið hér inn á af hv. þm. Hildi Sverrisdóttur. Það var algjör pólitísk samstaða um að þetta ákvæði þyrfti að fella á brott.

Þá er það hugmyndafræðin. Starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga er mikilvæg. Ég held við getum öll verið sammála um það. En það er bara ýmiss konar önnur starfsemi líka. Það má velta því fyrir sér hvort rök falli til þess að skylda sveitarfélög sérstaklega til að leggja ókeypis lóðir fyrir íþróttafélög, fyrir einkarekna tónlistarskóla, fyrir líknarfélög, fyrir alls konar starfsemi á vegum heilbrigðisþjónustu, ekki veitir nú af þessa dagana. Þetta er ekki talað um. Sveitarfélögin hafa reyndar talið sér heimilt að ráðstafa eignum sínum án endurgjalds til slíkra félaga eða starfsemi án þess að kveðið sé á um það í lögum. Það eru þá nokkuð sterk rök fyrir því að það sé ekki bara óhætt að fella brott þetta ákvæði 5. gr. laga um Kristnisjóðinn.

Mismunun á grundvelli trúarskoðana er ekki samræmanleg því samfélagi sem við viljum búa í ef við göngum á annað borð út frá þeirri túlkun, sem ég er þá komin aftur að. Það er heldur ekki nauðsynlegt til að uppfylla skyldur ríkisvaldsins, skv. 62. gr. stjórnarskrárinnar, hún gengur lengra en kveðið er á um í stjórnarskránni.

Mér þykir hins vegar í þessari umræðu mikilvægast af öllu að réttur sveitarfélaga til ákvörðunar um ráðstöfun eigin eigna sé varinn. Það er það sem er við erum að mæla fyrir um í dag, að óþörf og íþyngjandi skylda sé felld á brott úr lögunum. Við viljum að ráðstöfunarréttur eigna sé í höndum sveitarfélaganna og að lögin endurspegli kröfur og áherslur samfélagsins.

Hér er tekið undir með borgarráði Reykjavíkur um að sveitarfélög skuli ekki skyldug til að ráðstafa dýrmætu borgarlandi án endurgjalds. Ég vona að það sé eining meðal þingmanna um að veita frumvarpinu öruggt brautargengi. Það hafa margar góðar hugleiðingar og spurningar komið upp í umræðunni. Þær eru allar þess eðlis að þær séu teknar fyrir í nefnd þegar málið, ef og þegar vonandi, gengur til hennar og að fengnum umsögnum hlutaðeigandi.