148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur kærlega fyrir þetta andsvar, þetta er mjög mikilvæg umræða og mjög mikilvæg spurning sem hún veltir þarna upp. Ég get alveg tekið undir það, að ég held að umræðan, það sem átti sér stað á vettvangi Reykjavíkurborgar, um túlkun á þessum lögum, hafi vakið athygli ýmissa á þessu ákvæði laganna, einhverra sem kannski höfðu ekki gert sér grein fyrir því. Í mínum huga er hins vegar sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna útgangspunkturinn. Ég tel næsta einsýnt að héðan í frá muni trúfélög — af því að þetta útilokar á engan hátt, ekki samkvæmt minni bestu vitneskju, tækifæri sveitarfélaga til að ráðstafa eigum sínum á þennan hátt — sannarlega vera á jafnræðisgrundvelli sem ágreiningur er um og túlkunaratriði eins og það er í dag.

Líkt og hv. þingmaður gerði varpaði hv. þm. Hildur Sverrisdóttir upp þessari spurningu um jafnræði hér áðan. Þetta er bara nokkuð sem ég treysti á að fái góða umfjöllun í nefnd þannig við lendum málinu sem best. Það er sannarlega ekki — og ég held að ég geti bara vísað í þá umræðu sem átti sér stað áðan um ræðu 1. flutningsmanns — ætlunin að koma málum þannig fyrir að við séum að girða fyrir að önnur trúfélög fái sæti við borðið ef svo má segja.