148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta býr til endalausan hring. Ef við höfum það inni kemur alltaf eitthvað nýtt seinna og kirkjan þarf sífellt að byggja nýjar kirkjur. Hún er búin að fá þessi fríðindi hingað til en héðan í frá fær þjóðkirkjan ekki, frekar en önnur félög, þau fríðindi fyrir framtíðarkirkjur ofan í önnur fríðindi. Eins og kom fram í fyrri fyrirspurn verður meira að segja hægt að leggja fasteignagjöld á núverandi kirkjur. Það er ekkert sem kveður á um að þær séu undanskildar þeim lengur.

Ég held að ekki sé hægt að setja einhver sólarlagsákvæði sem þyrftu að gilda um aldur og ævi, annað en bara gildistíma frumvarpsins og þá hvernig það verður afgreitt í nefndinni, hvort núverandi umsóknir falli undir lögin eins og þau eru núna eða eftir breytingu. Ef við hefðum eitthvert sólarlagsákvæði myndi ég segja að við værum að búa til möguleika fyrir framtíðartrúarbrögð eða lífsskoðunarfélög til að reyna að komast inn á þennan samning líka og mér finnst það óþarfaflækja.