148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

287. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Af því að engum spurningum var beint til mín í þessu andsvari ætla ég að nota tækifærið og gera það sem mér láðist að gera í ræðu minni sem er að taka fram að flutningsmenn þessa frumvarps nú eru þingmenn Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar og Pírata og flutningsmenn þess frumvarps sem þetta frumvarp byggir á voru þingmenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar, Pírata og Bjartrar framtíðar á sínum tíma.

Ég tek undir orð hv. þingmanns, ég held að það sé orðið löngu tímabært að taka þessa breytingu til alvarlegrar skoðunar. Þetta er úr sér gengið fyrirkomulag. Það er óumdeilt að við erum með ströngustu skilyrði áfengissölu allra Norðurlandanna jafnvel þó að við berum okkur gjarnan saman við þau. Í því samhengi er líka vert að hafa í huga að hér er búið að sjóða þetta mál niður í einn einfaldan hlut, afnám ríkiseinokunar, ekkert annað. Það er vissulega verið að skerpa á (Forseti hringir.) lagaumhverfi áfengissölu um leið af því að það er kannski nauðsynlegra en áður ef einkaaðilum verður gert kleift að selja áfengi í smásölu.