148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

287. mál
[19:07]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé nokkuð ljóst að við erum kannski ekki mjög sammála um þetta málefni. Mér heyrist raunar á máli hv. þingmanns og nafna míns að honum væri skapi næst að fækka verulega útsölustöðum vínbúðanna og loka umtalsverðum fjölda þeirra vínveitingastaða sem eru hér í borginni til að stemma stigu við þeirri þróun (Gripið fram í.)sem hv. þingmaður lýsir. Þar er ég bara ekki sammála. (Gripið fram í.) Ég tel um einfalt mál að ræða. Áfengi er lögleg vara. Það er varað við óhóflegri áfengisnotkun. Þess vegna skiptir fræðslu- og forvarnastarf gríðarlega miklu máli. En að hefta frelsi manna til sölu á löglegri vöru eða hefta með óeðlilegum hætti frelsi einstaklingsins til aðgengis að þeirri sömu vöru tel ég ekki réttu ráðstöfunina.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir þegar hann vísar til ráðgjafar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en þar er líka ágætt að hafa í huga að stofnunin (Forseti hringir.) tiltekur gríðarlega mörg atriði sem hina heppilegu leið til forvarna sem endurspegla nokkurn veginn summu allra þeirra aðferða (Forseti hringir.)sem aðildarríki stofnunarinnar beita. Það er engin ein leið sem virkar óumdeilanlega best. Og ég ítreka það sem ég hef áður sagt, (Forseti hringir.) við erum með mun stífari ramma hér en t.d. á hinum Norðurlöndunum sem gjarnan er vísað til.

(Forseti (BHar): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörkin.)