148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

287. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég segi reyndar að viðskiptafrelsi sé ekki í boði Samtaka verslunar og þjónustu, það er í boði neytenda enda er það fyrst og fremst þeim til hagsbóta, hvort sem er á sviði áfengissölu, matvöruverslunar, eldsneytis eða annars staðar. Við trúum því nefnilega að samkeppni skili okkur á endanum fjölbreyttara vöruúrvali og lægra verði þó að ég hafi ekki miklar væntingar til lægra verðs þegar kemur að áfengi enda stærstur hluti verðlagningarinnar af hálfu hins opinbera.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns segir alveg skýrt í 14. gr. frumvarpsins:

„Sveitarstjórn skal einungis veita smásöluleyfi til sérvöruverslana sem falla undir ÍSAT-flokk 47.2 (smásala á matvöru, drykkjarvöru og tóbaki í sérverslunum) …“

Það er alveg ljóst að stórmarkaðir falla ekki undir það heimildarákvæði. Þar með er alveg skýrt að stórmörkuðum yrði ekki heimilt að selja áfengi á þeim grunni. Þar er einmitt verið að koma til móts við aðgengissjónarmiðið, að ekki sé verið að auka aðgengi frá því sem nú er.