148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvalveiðar.

[15:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið, að hluta. En ég ítreka spurningu mína: Eru Vinstri græn enn á móti hvalveiðum? Þrátt fyrir að þessu fimm ára tímabili sé vissulega að ljúka á þessu ári vil ég ítreka spurninguna: Munu Vinstri græn beita sér fyrir því og reyna með einhverjum hætti að stöðva þær hvalveiðar sem hefjast núna í júní, m.a. að fá þingið með sér í lið, og fara strax í endurskoðun og endurmat á hvalveiðistefnu Íslendinga? Þetta er ríkisstjórn undir forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Hvalveiðar eru að hefjast að nýju þrátt fyrir að það sé innan fimm ára tímabilsins. Eru Vinstri græn enn á móti hvalveiðum? Munu þau beita sér fyrir breyttri stefnu strax í sumar?

Ég heyri það og fagna því sérstaklega að þau ætla alla vega að styðja endurmat og endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendingar. Ég óska því eftir skýrara svari af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Eru Vinstri græn tilbúin til að fylgja eftir eigin stefnu þegar þau eru komin í ríkisstjórn?