148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

eftirlitshlutverk þingsins.

[15:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Þegar hæstv. forseti sat í ríkisstjórn 2009–2013 var hann m.a. einn af þeim sem beittu sér blessunarlega fyrir því að eftirlitshlutverk þingsins yrði styrkt með breytingu á þingskapalögum þar sem eftirlitshlutverkið var eflt og um leið var sannleiksskylda ráðherra ítrekuð, þar með talið að hann ætti að upplýsa um öll þau gögn sem gætu orðið til þess að gefa skýrari og skarpari mynd af viðkomandi máli hverju sinni.

Nú hefur atburðarás síðustu daga vakið mig mjög til umhugsunar um einmitt þessa sannleiksskyldu ráðherra. Þess vegna beini ég því eindregið til hæstv. forseta að styðja stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í því að fara nákvæmlega yfir þann hluta þess máls sem hefur verið mjög til umræðu og tengist barnaverndarmálum og Barnaverndarstofu og kanna hvort hæstv. félagsmálaráðherra hafi uppfyllt lagaskyldu sína gagnvart Alþingi, þ.e. upplýst og sett fram öll gögn sem tengjast því máli sem mjög hefur verið til umræðu. Það skiptir máli að við sýnum að við séum raunverulega að fylgja eftir þeirri breytingu sem m.a. hæstv. (Forseti hringir.) forseti stóð fyrir varðandi það að efla eftirlitshlutverk þingsins.