148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég rakti í fyrri ræðu tilurð vinnunnar við hvítbókina. Við núverandi aðstæður er þetta alveg sérstaklega dapurlegt, þ.e. ríkjandi stefnuleysi vegna þess að nú er einstakt tækifæri, var a.m.k. þó að það sé smátt og smátt að fjara út, búið að vera einstakt tækifæri til að ráðast í endurskipulagningu íslenska fjármálakerfisins svo það fari að virka fyrir almenning og atvinnulíf í landinu. Þá er skipuð nefnd sem á ekki að taka á og á ekki einu sinni að fjalla um ýmis grundvallaratriði í fjármálakerfinu, á ekki að fjalla um verðtryggingu og ekki um lífeyrissjóðina sem eru þó orðnir einn stærsti þátturinn í íslenska fjármálakerfinu, og skila einhvern tímann með haustinu punktum fyrir ríkisstjórnina til að ræða þó að það sé þegar orðið ljóst í þessari umræðu að menn verði varla mikið sammála um þá punkta, a.m.k. miðað við ólíka afstöðu stjórnarliða nú. Á meðan halda hlutirnir áfram að þróast án nokkurrar stefnu eða sýnar frá stjórnvöldum.

Landsbankinn, ríkisbankinn, er að hefja framkvæmdir við byggingu á risahöfuðstöðvum á líklega dýrustu lóð landsins áður en menn fjalla um það hvernig sá banki eigi að þróast.

Síðast í dag bárust fréttir af því í Fréttablaðinu að ríkisstjórnin ætlaði að gefa eftir forkaupsrétt að hlutabréfum í Arion banka, forkaupsrétt sem menn könnuðust ekki einu sinni við hérna lengi vel en nú virðist ríkisstjórnin ætla að gefa eftir þennan forkaupsrétt. Allt er þetta hluti af því sama, hluti af þróun þar sem aðrir en stjórnvöld leggja línurnar um þróun íslenska fjármálakerfisins, stjórnvöld smátt og smátt að missa frá sér það stóra tækifæri sem við höfðum til að koma á heilbrigðu fjármálakerfi á Íslandi.