148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:50]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka góða umræðu. Ég er ekki andvígur hvítbókarvinnu sem þessari, ég held að í langtímastefnumótun sé alltaf gott að horfa á það hvernig þróunin geti orðið og hverju þurfi mögulega að bregðast við. En það er tvennt sem ég óttast mest í þessari tilraun til að skjóta málum á frest.

Annars vegar er langstærsti þátturinn kostnaðurinn við myntina okkar. Ég deili draumi hv. þm. Óla Björns Kárasonar um að við munum einhvern tímann eiga aðgang að alþjóðlegu fjármálakerfi, allir landsmenn, ekki bara sumir. Sú verður hins vegar ekki raunin fyrr en við erum með alþjóðlega gjaldgenga mynt sem við erum ekki með í dag. Það er einfaldlega stærsta hindrunin gegn erlendri samkeppni inn á innlendan fjármálamarkað. Þetta er tvískiptur markaður, við getum sagt að það séu tvær þjóðir í landinu þegar kemur að þessu, þeir aðilar sem hafa aðgang að erlendu fjármagni á allt öðrum kjörum og eru að verða ansi ráðandi í fjárfestingum á innlendum markaði og svo aðilar og fyrirtæki sem þurfa að búa við hið háa innlenda vaxtastig. Það mun auka mjög verulega á misskiptingu í samfélaginu ef við ætlum að búa við þetta fyrirkomulag áfram.

Síðan er hinn þátturinn sem er sjálfstætt vandamál. 70% eignarhald ríkisins á fjármálakerfinu er samkeppnishindrun út af fyrir sig. Það hefur alveg sömu neikvæðu áhrifin á markaðinn að einn eigandi eigi 70% af honum þó að eigandinn sé ríkið. Við sjáum fjölmörg merki þess að samkeppnin mætti vera dálítið líflegri og kröftugri á þessum markaði en raun ber vitni.

Við erum öll sammála um mikilvægi þess að áður en hafist er handa við sölu á eignum ríkisins þurfi að tryggja dreift eignarhald. Það þarf ekki hvítbók til að skila okkur þeirri niðurstöðu. Nú þegar er hægt að hefjast handa við að tryggja eins dreift eignarhald og við getum og byrja svo að losa um eignarhlut ríkisins með gagnsæjum og vönduðum hætti þannig að við lærum af mistökum fyrri ára.