148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

kalkþörungavinnsla.

288. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að ljá máls á fyrirspurn minni og svara henni. Við ræðum auðlindir hafsins, nytjar og vernd. Það eru til margs konar kalkþörungar í hafi. Sumir svífa í sjónum og aðrir eru botnlægir og rauðir. Það eru svoleiðis rauðþörungar sem hér um ræðir. Vinnsla á þeim hefur verið í höndum Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. á Bíldudal síðan 2007. Þetta er eftirsótt vara. Lífrænt vottuð framleiðsla. Þetta er mjög mikilvægur vinnustaður á Bíldudal.

75% eru í eigu Celtic Sea Minerals á Íslandi, það er írskt fyrirtæki, og afgangurinn er í íslenskri eigu.

Kalkþörungalögin í Arnarfirði eru metin um 20 milljónir m³. Efst er lifandi lag sem er um 10–15 sm þykkt. Þar fyrir neðan eru dauðir þörungar í misþykkum lögum, allt upp í 8–10 m. Verkurinn er sá að rauðþörungar, þessir kalkþörungar, eru ákaflega hægvaxta tegund. Þeim er stundum líkt við eikartré. Það er brýnt að hyggja vandlega að áhrifum vinnslu á lífríkið og takmarka hana hér á landi eins og unnt er, af skynsemi.

Nú er kannað með vinnslu á fleiri stöðum en í Arnarfirði. Ég nefni Húnaflóa, Ísafjarðardjúp og jafnvel Jökulfirði. Kalkþörungar mynda bæði mikilvæg og viðkvæm vistkerfi. Þegar efnið er unnið er einfaldlega mokað upp af botni í skip, mulið og hreinsað. Komið hefur í ljós erlendis að það er mjög léleg endurheimt á þessum þörungum eftir vinnslu. Það eru engar reyndar mótvægisaðgerðir í boði.

Samráðshópur um verndun hafrýmis í Norðaustur-Atlantshafi, OSPAR, hefur áhyggjur af vinnslu kalkþörunga. Hún er víðast hvar ekki leyfð lengur. OSPAR lítur svo á að þetta sé tegund í hættu og það er með réttu. Írar hafa hætt efnistöku, Frakkar bannað hana en Norðmenn leyfa einhverja slíka efnistöku að því er virðist.

Nú eru þrjár spurningar til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Þær liggja reyndar hjá ykkur en ég ætla rétt að renna yfir þær. Þær varða endurmat á umfangi og framvindu kalkþörunganáms og fyrirhugaðar viðbætur þeirrar vinnslu, mótvægisaðgerðirnar. Og svo að lokum: Telur ráðherra að kalkþörunganám sé í samræmi við landsskipulagsstefnu fyrir árin 2015–2026, sem segir að skipulag á haf- og strandsvæðum grundvallist á heildarsýn á málefni hafsins og að stuðlað skuli að viðhaldi vistkerfa (Forseti hringir.) og sjálfbærri nýtingu auðlinda?