148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

nám á atvinnuleysisbótum.

532. mál
[17:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég vitna í grein í Vísi frá 11. apríl 2018 um að karlmanni hafi verið gert að endurgreiða 360.000 kr. þar sem hann þáði atvinnuleysisbætur samhliða fjarnámi í einum áfanga í framhaldsskóla. Það kom fram í máli ráðherra áðan að fjarnám væri undanskilið, ef ég skildi hann rétt. Þetta finnst mér allt mjög undarlegt mál. Ef úrskurðarnefnd velferðarmála kemst að því að þessi eini fjarnámsáfangi hafi gert það að verkum að hann þyrfti að endurgreiða atvinnuleysisbæturnar fyrir það tímabil hlýtur ráðherra að skoða þann úrskurð betur og fá kannski einhverjar útskýringar á honum.

Á heildina litið hlýtur að vera jákvætt og gott að hafa skýr endurmenntunarákvæði tengd lögum um atvinnuleysistryggingar. Ég held að það sé hjálplegt fyrir alla. Það er nefnt í kærunni við þessa ákvörðun að tilgangurinn hafi einmitt verið að auka þekkingu í ensku til að geta fengið mögulega fleiri störf.

Ég held að öllum sé ljóst að það þarf að fara í nánari skoðun á uppbyggingu á menntamálum í landinu. Við þurfum að koma okkur upp almennilegri menntastefnu í heildina, alveg frá lokum fæðingarorlofs og til loka doktorsnáms. Alveg tvímælalaust er eitthvað sem þarf að skýra betur varðandi þann hluta þegar fólk er að sækja sér endurmenntun utan vinnu.