148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

sektareglugerð vegna umferðarlagabrota.

560. mál
[17:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Umferðaröryggismál eru velferðarmál og þar af leiðandi einn mikilvægasti málaflokkurinn sem stjórnvöld fást við. Sektir og refsingar sem varnaðaráhrif eru einn hlekkurinn í umferðaröryggiskeðjunni. Það eru margir þættir sem þarf að huga að til að þessi leið nái tilgangi sínum og sé framkvæmd á sem skynsamlegastan hátt. Það er það sem við ætlum að ræða hér í dag.

Varnaðaráhrifin verða ekki mikil nema lögreglan hafi tök á að fylgja breytingunum eftir. Það hefur oft komið fram við gerð umferðaröryggisáætlunar að sýnileiki lögreglu er sá þáttur sem hefur hvað mest áhrif í umferðaröryggismálum. Það hefur verið sagt að hægt sé að koma í veg fyrir fjögur af hverjum fimm umferðarslysum vegna hraðaksturs og ölvunaraksturs með virku eftirliti lögreglu. Það er mín trú að fjárhæð sekta sé ekki helsti fælingarmátturinn né það sem lögreglan fer eftir þegar hún stundar sitt frumkvæðiseftirlit. Upphæðir sekta koma vitaskuld misvel við fólk eftir efnahagsstöðu. Munu bara þeir efnuðu keyra hratt eða gleyma ökuskírteininu? Svo er spurning á tækniöld hvort það sé nauðsynlegt að sekta fólk fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis.

Einnig langar mig að nefna hækkunina í nýrri sektareglugerð fyrir að aka um á nagladekkjum. Einstaklingur sem hefur ekki skipt yfir á sumardekk gæti lent í 80.000 kr. sekt og þar af leiðandi mun hann ekki hafa efni á nýjum sumardekkjum þegar sektin hefur verið greidd.

Á sama tíma er lágmarkssekt fyrir það að vera ekki með öryggisbeltið spennt og að aka gegn rauðu ljósi sem eru tvær algengar ástæður þess að slys verða í umferðinni og alvarleiki slysanna fer oft eftir þessum þáttum. Ég man ekki eftir mörgum slysum vegna nagladekkja.

Svo eru þarna breytingar sem eiga augljóslega fullan rétt á sér eins og 40.000 kr. sekt fyrir notkun farsíma við akstur.

Því vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra hvernig upphæðirnar voru ákveðnar og hver séu helstu rök á bak við þessa nýju reglugerð.

Um leið vil ég spyrja hvort skoðað hafi verið að nýta punktakerfið enn frekar til að ná þessum sömu markmiðum. Punktakerfið hefur áhrif á réttindamissi sem ég held að margir forðist frekar en fjársektir. Hefur hæstv. ráðherra gengið úr skugga um að lögreglan hafi mannafla og geti skipulagt sig til að fylgja þessum breytingum eftir í gegnum umferðaröryggisáætlun eða á annan hátt? Er tryggt að hægt sé að vinna úr þeim málum sem koma upp í gegnum sjálfvirkt eftirlit eins og hraða- og rauðljósamyndavélar og þegar vanræksla á skoðun er sem dæmi? Einnig vil ég spyrja hvort ráðherra hyggist vinna að skammtímaskráningu erlendra ökutækja í ökutækjaskrá svo fylgja megi eftir umferðarlagabrotum er tengjast slíkum ökutækjum.