148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

sektareglugerð vegna umferðarlagabrota.

560. mál
[17:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka jafnframt hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að taka þetta upp. Það er einmitt einn liður í því að koma upplýsingunum og umræðunni út í samfélagið, um að sektir hafi verið hækkaðar og að menn þurfi í raun og veru að fara varlega. Ein leið til að fækka slysum er að fylgja þeim reglum, boðum og bönnum sem eru sett til þess.

Ég ítreka að samkvæmt umferðarlögunum er það ríkissaksóknara að gera tillögu til ráðherra um fjárhæð sektanna. Hugmyndirnar koma þaðan. Síðan fóru þær til umsagnar hjá ríkissaksóknara og einnig á opinn vef hjá ráðuneytinu. Þær umsagnir sem bárust voru allflestar jákvæðar enda snýst þetta fyrst og fremst um að bæta umferðaröryggi. Menn hafa getað sýnt fram á að það er nauðsynlegt.

Ég vil jafnframt þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að taka þátt í umræðunni. Hann spurði um nýmælin gagnvart reiðhjólum. Það er verið að setja inn að þegar hjólað er gegn rauðu umferðarljósi sem menn hafa því miður séð svolítið, það fara ekki allir að lögum, skapast oft mikil hætta. Þarna er því verið að setja inn heimild til að sekta fyrir það.

Varðandi það sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason vakti máls á um getu lögreglunnar til að sinna þessu verkefni er verið að setja aukið fjármagn til hraðaeftirlits sem skiptir sköpum fyrir umferðaröryggi, þ.e. umferðaröryggisstefnuna, og aukið fjármagn sem ríkisstjórnin veitti í síðustu viku mun líka bæta umferðaröryggi því að betri vegir skapa meira öryggi.

Varðandi spurningu sem hv. þingmaður hefur reyndar orðað við mig áður, um skammtímaskráningu erlendra ökutækja, er það nokkuð sem við erum sammála um að sé skynsamlegt að koma á þannig að þau séu skráð inn í okkar kerfi til að auðvelda skráningu og eftirfylgni við að rukka sektirnar, en það er líka í (Forseti hringir.) tengslum við það sem menn hafa verið að velta fyrir sér um breytt fyrirkomulag á tekjum, einhvers konar tímagjöld. Þá getur skipt máli að þessar skráningar liggi fyrir. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að beita okkur fyrir að koma á. Ég þakka fyrir góða umræðu.