148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur trúnaður verið til umræðu hér í þinginu. Trúnaður þingmanna, milli þingmanna. Trúnaður í störfum okkar. Það er mikilvægt að í starfi þingmannsins sé trúnaður haldinn og þær reglur sem gilda, hvernig farið er með tölvupósta og annað slíkt á milli okkar hér í þingsal, milli okkar í þingnefndum. Það er alvarlegt mál að ég sendi tölvupóst sem var eftir örfáar klukkustundir kominn í fjölmiðil sem ég hef ekki miklar mætur á. Það sýnir að einhver af þeim sem fengu þennan tölvupóst hefur lekið honum í viðkomandi fjölmiðil.

Það er með ólíkindum að við skulum ekki geta treyst því að skilaboð okkar á milli fari eingöngu í þann farveg sem þau eiga að fara. Ég hef áður orðið var við að upplýsingar úr þinginu fari í þennan fjölmiðil. Við munum eftir leka í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hér fyrir nokkrum misserum. Ég held að virðing þingsins verði að aukast. Við verðum að taka okkur tak að þessu leyti til að geta sýnt hvert öðru það traust sem okkur ber í störfum okkar. Við höfum mismunandi skoðanir á hlutunum en við verðum að geta treyst því að það sem við segjum og það sem við sendum hér á milli okkar rati ekki beint í fjölmiðlana. Það eru engin vinnubrögð.