148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að beina kastljósinu að kjarabaráttu ljósmæðra og ekki síst kjörum. Ég vil samt færa umræðuna aðeins víðar og ræða um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Kjarabarátta ljósmæðra, sú sem þær standa í núna, er nefnilega dapurleg birtingarmynd þeirrar stefnu sem hér hefur verið rekin um árabil, að menntun og störf kvenna skuli vega minna en menntun og störf karla.

Ljósmæður eiga það sameiginlegt með mörgum öðrum kvennastéttum að störfin eru fyrst og fremst hjá ríki og sveitarfélögum. Það er því á ábyrgð hins opinbera að tryggja að launakjörin séu í samræmi við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði hjá öðrum sambærilegum stéttum. Það kemur engum á óvart að ein af ástæðunum fyrir því að stjórnvöld hafa lengi dregið fæturna í því að lagfæra launakjör þessara stétta er að þetta eru stórir hópar og það mun kosta. Það mun hafa kostnað í för með sér að leiðrétta kjörin.

En hvað mun það kosta samfélagið að takast ekki á við þetta núna heldur bíða lengur? Hvað mun það kosta að halda áfram á sömu óheillabraut með tilheyrandi brotthvarfi menntaðs fólks úr heilbrigðis- og menntakerfinu? Hæstv. ráðherra talaði um að hún hefði áhuga á að setja kjör kvennastétta í forgrunn. Það er gott. Það er nefnilega ekkert náttúrulögmál að kvennastéttir hafi lakari kjör. Þar af leiðandi eru góðu fréttirnar þær að við getum breytt þessu.

En við breytum þessu ekki með því að setja tilneydd plástra á sárin þegar tilteknum kvennastéttum eða hópum kvenna er að blæða út. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka undir þingsályktun um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

Til að laga þessi kjör og hætta að setja plástra á einstaka sár þurfum við aðgerðir og pólitískan vilja. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur ríkisstjórn Vinstri grænna þann vilja?