148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu um þá ótrúlegu stöðu sem ljósmæður eru í. Maður skilur ekki hvernig stendur á því að jafn mikilvæg stétt sem nýtur jafn mikils velvilja í samfélaginu og ljósmæður, þurfi að standa í jafn harðri kjarabaráttu mánuðum saman.

Íslendingar náðu því núna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs að skríða yfir 350 þús. íbúa. Hvert eitt og einasta okkar á sögu af jákvæðum samskiptum við ljósmóður, af því hvernig ljósmóðir hefur hjálpað okkur, hefur bjargað lífi okkar eða hvað þá annað. Allt þetta fólk vill að ljósmæður fái leiðréttingu kjara sinna. Það er augljóst af allri umræðu hér í salnum og í samfélaginu.

Ég held að ótti þeirra sem halda um tékkhefti ríkisins við það að önnur stéttarfélög fari að hlaupa á eftir og það verði eitthvað höfrungahlaup og launaskrið sé ástæðulaus. Við höfum öll skilning á leiðréttingunni sem er nauðsynleg, miklu frekar en launaskriði forstjóra ríkisstofnana eða annarra sem fá hærri laun.

Eins vel og við skiljum nauðsyn leiðréttingarinnar þá held ég að við skiljum ekki að leiðrétting sé vikum saman föst í einhverri stjórnsýslulegri flækju og að ráðherrann sem ber ábyrgð á öryggi heilbrigðiskerfisins og hefur lýst fullum vilja til þess að bæta kjör ljósmæðra hafi ekki beina aðkomu að samningaviðræðum við þær, heldur sé það annar ráðherra sem hafi einhvern veginn allt aðra sýn á þessi máli.

Því miður erum við ekki hér að ræða við hæstv. fjármálaráðherra sem (Forseti hringir.) stýrir samninganefnd ríkisins, það er kerfi sem við gætum þurft að breyta. En ég vona að hann sé að hlusta. Ég vona að samninganefndin (Forseti hringir.) sé að hlusta því að skilaboðin eru skýr: Semjið.