148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir að brydda upp á þessu mikilvæga máli hérna. Vandinn sem við erum að glíma við þegar kemur að kjörum ljósmæðra, en ekki bara ljósmæðra heldur kvennastétta almennt hérna í landinu, er algjört stefnuleysi í launastefnu fyrir þessa hópa. Ríkisstjórnin eða hið opinbera hefur enga stefnu þegar kemur að launakjörum þessara mikilvægu hópa og það lýsir sér einfaldlega í því að hvort sem við horfum til ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, kennara, hvort sem horft er til leikskólakennara eða grunnskólakennara, eru launakjörin slík að u.þ.b. helmingur þeirra sem menntað hafa sig til þessara starfa starfar við annað. Samt er skortur á starfsfólki í öllum þessum greinum. Þetta endurspeglar algjört stefnuleysi hins opinbera í kjörum þessara hópa.

Þess vegna er ánægjulegt að heyra hæstv. heilbrigðisráðherra taka undir og styðja við þjóðarátak um bætt kjör kvennastétta. Það er algjört lykilatriði í þessu máli. Þessi mál verða nefnilega ekki leyst í einstökum kjaradeilum og þessir hópar munu heldur aldrei sætta sig við að fá sambærilegar launahækkanir og verið er að keyra yfir vinnumarkaðinn almennt, einfaldlega af því þeir hafa setið eftir. Við sjáum það mjög skýrt í samanburði okkar á alþjóðavísu að það eru bara tvö ríki innan Evrópusambandsins og EES-svæðisins sem borga minna fyrir menntun en Ísland og það er að mínu viti fyrst og fremst út af því hversu illa við borgum vel menntuðum kvennastéttum. Það er staðreynd máls. Við leysum það ekki öðruvísi en að taka heildstætt á þessum vanda. Þess vegna hvet ég ríkisstjórnina til að taka undir með okkur og keyra í gegn þingsályktunartillögu um bætt kjör kvennastétta. Það er leiðin til þess að taka á þessum vanda, þar með talið þeim vanda sem verið er að glíma núna við í kjaradeilu ljósmæðra en líka fjölmargra annarra fjölmennra kvennastétta á vinnumarkaði.