148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[13:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Afstaða Íslands almennt til samvinnu og samstarfs við önnur ríki mun ráða núna meiru um þjóðarhag en nokkru sinni fyrr í sögunni að mínu mati. Það gildir einu hvert litið er í samfélaginu, hvort viðfangsefnið lýtur að vörnum landsins, umhverfismálum, menningu eða efnahagsmálum og viðskiptum og neytendavernd. Sérhvert skref í alþjóðasamvinnu sem við höfum tekið, hvort sem það var við NATO, EFTA eða EES, og ýmsir fríverslunar- og tollasamningar sem við höfum gert, hefur bætt efnahag landsins og eflt um leið velferð fólksins alls í landinu.

Í samfélagi þjóðanna erum við Íslendingar nefnilega ekki eyland. Við erum hluti af heild. Og við erum ekki bara í þessu, að vera hluti af heildinni, til að hafa af evrópskum nágrönnum okkar ýmislegt gagn heldur líka til að leggja okkar af mörkum. Við sem trúum því að þátttaka í alþjóðasamvinnu skili samfélaginu meiru en einangrunarhyggja, við sem trúum á að frjáls og opinn markaður sé meira til heilla fyrir fólk, fyrir fjölskyldur og neytendur, en hindranir og alls kyns tálmanir, sjáum tækifæri í alþjóðasamningum eins og þeim sem við ræðum hér, tollasamningum þar sem er verið að lækka tolla á ýmsum nauðsynjavörum til íslenskra heimila. Það þarf einhver að segja mér það tvisvar ef ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins þá, í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn, hafi ekki á sínum tíma viðhaft samvinnu og samtöl við helstu hagsmunasamtök. Ég geng út frá því að það hafi verið gert, enda eðlilegt að samráð hafi verið haft bæði við bændur sem og neytendur.

Við skulum vera minnug þess að einn stærsti útgjaldaliður íslenskra heimila á eftir vaxtakostnaði, og auðvitað er það herkostnaðurinn við íslensku krónuna, er matarkarfan. Matarkarfan á Íslandi er tugum prósentum dýrari en annars staðar í Evrópu. Að lækka matvælakostnað heimila er því ein mesta kjarabótin fyrir fjölskyldurnar, eitthvað sem við öll eigum að hafa í huga núna, ekki síst þegar kjaraviðræður eru yfirvofandi.