148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[14:01]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda þessa umræðu. Ég vil beina þeim orðum til hv. þm. Birgir Þórarinssonar að hann hefði kannski frekar átt að fara fram á að fram færi opinber rannsókn á því hverjir gerðu þann tollasamning sem hann tekur hér til umtals og hvernig unnið var úr honum hér í þinginu. Ég vil bara benda á að þegar Alþingi afgreiddi búvörusamninga haustið 2016 var bændum ljóst og öllum þingheimi að það hékk algjörlega saman, þ.e. úrvinnsla búvörusamninga sem þá höfðu verið gerðir til 10 ára, og voru afgreiddir í þinginu, og sá tollasamningur sem hér er til umræðu. Það var brugðist við með mótvægisaðgerðum. Þar var verið að bregðast við þeim stóru breytingum sem sannarlega verða 1. maí. Þetta eru einhverjar mestu breytingar í starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar sem orðið hafa á seinni árum. Þá skiptir máli hvernig við höldum áfram að vinna úr því, hvernig við ætlum áfram að mæta þessum stóru breytingum.

Efnislega ætla ég ekki að dæma þennan tollasamning og hvernig hann er uppbyggður að þessu sinni, heldur einungis að horfa til þess hvernig við getum síðan áfram unnið með það að standa vörð um íslensku framleiðsluna, að hún standist þessa samkeppni sem kemur. Framkvæmd tollasamningsins og breyting hans fellur til á tíma sem er óskaplega erfitt að takast á við. En ég horfi til þess að við þær stóru breytingar sem nú eru að verða verði afurðastöðvar bænda líka að bregðast við með þeim hætti. Sú grundvallarbreyting er að verða á íslenskum markaði með íslenska búvöru, með þessum stóru innflutningsheimildum hingað, sem hv. málshefjandi sannarlega rakti hér og ég tek undir, að sameining afurðastöðva verður að eiga sér stað.

Ég get vel séð fyrir mér, vegna þeirrar eðlisbreytingar sem orðið hefur hér á markaði, að sláturhúsamarkaðurinn eða kjötvinnslugeirinn geti þurft að sameinast í eitt fyrirtæki. Ég sé engin efnisleg rök fyrir því lengur að halda því fram að tryggja þurfi samkeppni hér á innanlandsmarkaði þegar þessi stóra breyting (Forseti hringir.) hefur orðið, þegar við getum sagt að við horfum til þessa stóra markaðar í heild sinni.