148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:40]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Nú háttar svo til að ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, er reyndar ekki á nefndaráliti um þetta ágæta mál en finnst engu að síður ágætt að sú athugun sem þar er lögð til fari fram. Ég held að það sé mikilvægt að bera saman alla þessa kosti varðandi mögulega verðtryggingu, hvort það sé betra að notast við núverandi fyrirkomulag eða samræmda vísitölu neysluverðs eða vísitölu án húsnæðisliðar. Ég held hins vegar að þegar öllu er á botninn hvolft skipti þetta allt afskaplega litlu máli. Ég sakna þess í umræðunni um verðtryggingu og vaxtakostnað, sem er kannski það sem skiptir helstu máli, hár vaxtakostnaður á Íslandi, að menn tali um rót vandans og um einhverjar raunverulegar lausnir á honum.

Ef íslenskt meðalheimili myndi greiða sambærilegan matvæla- og vaxtakostnað og nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum samsvaraði það aukningu ráðstöfunarfjár á mánuði upp á 150.000 kr. Ég held að flest heimili muni um þá upphæð. Samt eru hér flokkar sem tala alltaf um að það sé verið að gæta sérstaklega hagsmuna neytenda þegar talað er um afnám verðtryggingar en neita að horfast í augu við það að verðtryggingin er einfaldlega ein birtingarmynd kostnaðar við sjálfstæða peningastefnu. Íslensk heimili eru engir vitleysingar og þegar þau bera saman t.d. valkosti okkar í lánum á fasteignamarkaði geta þau skoðað svart og hvítt í reiknivélum bankanna hvað þau borga fyrir óverðtryggð lán, sem þeim standa til boða, og hvað fyrir verðtryggð lán.

Þegar upp er staðið borgum við einfaldlega mun meira fyrir verðtryggða lánið en mánaðarleg greiðslubyrði okkar er lægri. Staðreyndin er sú að verðtryggingin er afleiðing af háu vaxtastigi sem hefur fylgt sjálfstæðri peningastefnu um áratugaskeið, einfaldlega af því að heimilin ráða ekki við óverðtryggðan kostnað lánanna. Það er bara hin napra staðreynd og því verður ekki breytt með því að breyta útreikningi verðtryggingarinnar. Það er ekki verið að ráðast að rót vandans með því. Því verður ekki breytt nema með því að taka upp einhverja alþjóðlega mynt sem heldur verðgildi sínu og er hægt að reka hér við lægra vaxtastig að jafnaði en okkur hefur tekist. Þegar við horfum á þessa stöðu alveg ískalt getum við sagt að við höfum á undanförnum 100 árum prófað allar mögulegar leiðir til sjálfstæðrar peningastjórnar með íslenska krónu og þær hafa allar mistekist — undantekningarlaust. Sú sem við keyrum eftir núna er að keyra okkur í alveg sama ójafnvægið. Þó að við lifum við góðæri akkúrat núna sjáum við alveg sömu blikurnar á lofti og munum vafalítið þurfa að súpa seyðið af því þegar fram í sækir. Það er alveg sama ofrisið á krónunni, það er alveg sama hættan á falli hennar með tilheyrandi verðbólguskoti til að rýra kjör heimilanna.

Það er raunar alveg með ólíkindum að horfa á flokka sem tala um að berjast fyrir hagsmunum neytenda þverskallast algjörlega í þessu máli og neita að horfast í augu við að við keyrum á gjaldþrotapeningastefnu, höfum gert það um langt árabil, áratugaskeið. Það er áhugavert í sama samhengi að horfa til þess að sömu flokkar andmæltu hér fyrr í dag þeim tollalækkunum sem tóku gildi um síðustu mánaðamót til hagsbóta fyrir neytendur, til að lækka matvælaverð í landinu. Þar finna menn allt því til foráttu að stíga þessi mikilvægu skref. Við verðum að horfast í augu við það aftur að ein helsta ástæðan fyrir háu matvælaverði hér er einmitt hátt verðlag á landbúnaðarafurðunum okkar sem lítil samkeppni ríkir um.

Staðreyndin er sú að við höfum um áratugaskeið reynt að fá erlenda banka inn í fjármálakerfið okkar til að auka samkeppni á fjármálamarkaði. Það hefur ekki tekist, einfaldlega af því að erlendir bankar telja myntsvæðið okkar of lítið til að starfa á því, of áhættusamt, ekki í raun og veru áhættunnar virði að eiga við svo lítið, sjálfstætt myntsvæði. Horfum á muninn milli hinna Norðurlandanna og okkar, sjáum viðbrögð Norðurlandanna við sinni eigin fjármálakrísu fyrir röskum aldarfjórðungi. Það varð til samnorrænn bankamarkaður, samkeppni jókst á norræna bankamarkaðnum og vaxtastig þessara landa lækkaði sem afrakstur og lærdómur af þeirri fjármálakrísu. Hér hefur okkar fjármálamarkaður einangrast enn frekar sem afleiðing af okkar fjármálakrísu. Sú litla samkeppni sem þó hafði náðst, sá aðgangur að ódýrara fjármagni sem þó hafði verið hér í aðdraganda þessarar fjármálakrísu — það má svo sem ekki gleyma því að ýmislegt var auðvitað lærdómsríkt varðandi það að taka lán í annarri mynt en t.d. tekjur einstaklinga eru í, en við sjáum að við erum með enn minni samkeppni á markaðnum og enn hærra vaxtastig. Þessu verður ekki breytt með einhverjum bellibrögðum um að við ætlum að afnema verðtryggingu.

Óverðtryggðu kjörin er einfaldlega miklu hærri. Heimilin ráða ekki við þau. Þótt við breytum útreikningi á vísitölunni held ég að það muni líka harla litlu breyta því að þegar upp er staðið er það eitthvert undirliggjandi nafnvaxtastig sem ræður. Við gætum helmingað mælinguna á verðbólgunni og ég held að vextirnir myndu standa óbreyttir á eftir í samanburði við óverðtryggð vaxtakjör.

Staðreyndin er sú að sjálfstæð mynt kostar. Hún hefur kostað okkur alveg gríðarlega mikið á undanförnum árum og áratugum. Við höfum séð hvernig krónan hefur magnað upp hagsveifluna. Við búum ekki við viðvarandi hærra hagvaxtarstig eins og við teljum okkur oft trú um samanborið við nágrannalönd okkar, við búum bara við miklu sveiflukenndara hagvaxtarstig en nágrannalönd okkar. Á endanum lendum við á voðalega svipuðum stað en með miklu meira ójafnvægi, miklu meiri búsifjum fyrir heimili og fyrirtæki, miklu meiri kostnað og miklu hærra vaxtastig.

Því má heldur ekki gleyma að í þessu umhverfi eru tvær þjóðir. Önnur er sú sem hefur aðgang að erlendu fjármagni á öðrum kjörum og hefur erlendar tekjur til að standa skil á slíkum lánum. Við sjáum að það eru ráðandi aðilar í fjárfestingum í hagkerfinu í dag. Svo er hin þjóðin, m.a. litlu og meðalstóru fyrirtækin okkar og heimilin sem ekki hafa slíkan aðgang, þurfa að standa straum af innlendum háum vaxtakostnaði og eiga engan annan kost. Þetta eykur einfaldlega á misskiptingu og dregur úr tækifærum þessara hópa sem eru eins og litlu sprotafyrirtækin sem hafa ekki aðgang að hagkvæmu erlendu lánsfé.

Mér þótti áhugavert að heyra hv. þm. Ólaf Ísleifsson tala um að hagkerfið okkar væri byggt á sömu hagrænu lögmálunum og hagkerfi nágrannalanda okkar. Það er alveg rétt. Hér gilda ekki öðruvísi reglur eða duga okkur í okkar hagstjórn en við neitum alltaf að horfast í augu við það. Það er ekkert annað ríki af okkar smæð sem hefur reynt að keyra sjálfstæða peningastefnu með þeim hætti sem við höfum gert. Öll önnur ríki af sambærilegri stærð hafa bundið trúss sitt við aðra alþjóðlega mynt, það er staðreynd máls, af því að þau hafa áttað sig á því að það er allt of kostnaðarsamt að keyra sjálfstæða peningastefnu.

Það ætti að vera lærdómur okkar af öllum þessum sveiflum, gengisfalli á átta til tíu ára fresti og öllum þeim óstöðugleika sem því fylgir, öllum þeim búsifjum sem því fylgja fyrir bæði heimili og atvinnulíf, að þetta er fullreynt. Við erum búin að reyna þetta alveg nógu lengi. Við getum vafalítið fundið eitthvert nýtt afbrigði af sjálfstæðri peningastefnu, hún mun samt vafalítið enda með sama hætti og allar hinar fyrri tilraunir hafa gert.

Við búum við varanlega hærra verðbólgustig á Íslandi en tíðkast í nágrannalöndum okkar út af þessum óstöðugleika myntarinnar og út af því hvað það hefur mikil áhrif inn í hagkerfið hjá okkur, út af því hve mikið vægi utanríkisviðskipta okkar er. Það er orðið tímabært að við hættum þessum blekkingaleik í umræðu um breyttar reikniforsendur verðtryggingar eða afnám verðtryggingar. Við erum að glíma við viðvarandi hátt vaxtastig íslensku krónunnar. Það er vandinn og á honum er aldrei tekið. Stjórnmálamenn neita að horfast í augu við hann, þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál eða sambærilegt er rætt á þinginu. Það er stöðugt verið að blekkja almenning með því að segja: Jú, við getum víst lagað þetta. Við getum víst náð utan um þetta. Við getum víst náð vaxtastiginu hérna niður, við ætlum bara að prófa einhverja nýja aðferð. Við ætlum að banna verðtrygginguna, við ætlum að reikna hana öðruvísi, við ætlum að búa til nýja peningastefnu. Þetta hefur alltaf skilað sömu niðurstöðunni, sömu háu vaxtakjörunum, sama vaxtamuninum við nágrannalönd okkar. Við vindum ekki ofan af þessari vitleysu nema með því að taka upp alþjóðlega gjaldgengan gjaldmiðil. Það er einfaldlega veruleiki máls.

Við þurfum að fara að horfast í augu við það í heildarhagsmunamati okkar hvað myntin okkar kostar. Hvað kostar þetta samkeppnisleysi sem er á fjármálamarkaðnum, t.d. takmarkað innflæði erlends fjármagns af því að nú þurfum við að beita innflæðishöftum? Vafalítið þurfum við að taka upp útflæðishöft að nýju þegar pendúllinn sveiflast í hina áttina.

Þetta er veruleiki máls. Þetta er kostnaðurinn við krónuna. Við getum talað um hvað við gætum gert fyrir vaxtakostnaðinn, 80.000 kr. á mánuði fyrir meðalheimili sem er vaxtamunurinn við Norðurlöndin, eða við gætum talað um hagkerfið í heild þar sem hefur verið talað um stærðargráðuna 200 milljarða á ári sem þessi vaxtamunur hefur kostað okkur. Ég held að við værum öllu betur statt þjóðfélag ef við værum án þessa kostnaðar.