148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvarið. Það er bara rétt og ég ítreka það að ég er ekki par hrifinn af verðtryggingu, hef aldrei verið. En ég horfi einfaldlega til raunhæfra leiða til þess að losna við hana. Það er ekki nauðhyggja. Sumir myndu kalla það skynsamlega rökhyggju. Ég hef einfaldlega horft stöðugt á rök með eða á móti þessum málum og er löngu orðinn sannfærður um að það er fullreynt með sjálfstæða peningastefnu. Okkur hefur ekki tekist allar götur frá fullveldi að ráða við gjaldmiðilinn í þeirri smæð og þeim óstöðugleika sem honum hefur fylgt. Við höfum prófað ýmis ráð til þess.

Að ég hlusti ekki á rök, ég hafna því alfarið. Ég hef kynnt mér þau vandlega. Ég veit að það er ýmislegt sem mætti gera til að reyna að lagfæra núverandi ástand eitthvað, en það er eins og að ávísa magnyl við krabbameini.