148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[16:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég þekki ágætlega til skrifa umrædds hagfræðings og margt mjög áhugavert sem hann setur fram. Það er alveg rétt að Svíar hafa keyrt sitt vaxtastig niður að vaxtastigi Evrópska seðlabankans og með nánast formlegum hætti, getum við sagt, afsalað sér sjálfstæðri peningastefnu, einfaldlega sagt: Við verðum að fylgja vaxtastigi Evrópska seðlabankans til þess að annars vegar verja samkeppnishæfni okkar og til þess að sporna við of miklu fjármagnsflæði fram eða til baka.

Í hagkerfi sem er svo miklu stærra en okkar, eins og Svíþjóð er, virðist þetta virka alveg ágætlega. En ég horfi líka á móti til þeirrar staðreyndar að þegar við horfum til hagkerfa af okkar smæð þá virðist stefna af þessu tagi ekki ganga upp. Ég ítreka af öllum þeim fjölda ríkja sem er með færri en 2 milljónir íbúa, ég hygg að þau séu um 80 eða svo, erum við það eina sem er með sjálfstæða mynt og sjálfstæða peningastefnu.

Ég held einfaldlega að þegar við sjáum hvað gengissveiflurnar hjá okkur hafa miklu meiri áhrif á verðlag, vegna þess hve hátt hlutfall af nauðþurftum okkar við flytjum inn, þá þolum við einfaldlega minni gengissveiflur en mörg nágrannaríki okkar gera. Sænska krónan hefur vissulega alveg sveiflast í þessari stefnu. Hún sveiflast reyndar mun minna en sú íslenska, en ég held að það sé nær borin von, og hefur ítrekað verið reynt, að ná vaxtastigi eitthvað niður, en það virðist þurfa hinn viðvarandi 3% raunvaxtamun plús/mínus til þess að viðhalda þó sæmilegum stöðugleika í gengi krónunnar. Ég held að það gæti reynst okkur mjög erfitt að gera þetta.