148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[16:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að reyna að fara út í einhverja lærða umræðu við þingmanninn, hvers vegna matvælaverð eða verð á landbúnaðarvörum er hér svo hátt sem raun ber vitni. Það er það óneitanlega, það sjáum við af öllum samanburði. Það kann eitthvað að hafa að gera með smæð okkar sem þjóðar. Það kann eitthvað að hafa með okkar norðlægu legu að gera, að hér snjói í maí til dæmis. Þetta er kannski ekkert sérstaklega búsældarlegt ríki fyrir blómlegan landbúnað.

En það er alveg rétt sem vísað er til með frændur okkar Norðmenn og aftur Svía en enn og aftur verður að hafa í huga að Noregur er um það bil 15 sinnum stærri en við að íbúafjölda, ætli í Svíþjóð sé ekki þrítugfaldur íbúafjöldi Íslands eða þar um bil. Þetta eru allt önnur og miklu stærri hagkerfi en okkar. Það færi kannski ágætlega á því að horfa til frænda okkar í Færeyjum sem hafa stuðst við dönsku krónuna alla tíð, sem vel á minnst (Forseti hringir.) er fest við gengi evrunnar. Það hefur gengið ágætlega hjá Færeyingum með það fyrirkomulag; til dæmis mun lægra vaxtastig á húsnæðislánum, engin verðtrygging.