148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allrar allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga sem snýr að ærumeiðingum og brotum gegn friðhelgi einkalífsins.

Þessi tillaga snýst um að tekið sé til endurskoðunar hvort ákvæði sem snerta ærumeiðingar eigi yfir höfuð heima í hegningarlögum, hvort ekki fari betur á því að færa þau í almennan skaðabótarétt, og er öðru fremur tillaga sem snýst um að styrkja tjáningarfrelsið hér á landi þar sem sá harði lagarammi sem nú er fyrir hendi hefur allt of oft verið notaður til að halda aftur af tjáningu í fjölmiðlum.

Með tillögunni er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að láta fara fram endurskoðun á þessum kafla hegningarlaga í því skyni m.a. að meiðyrðalöggjöf uppfylli skilyrði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og því ákvæði hefur verið beitt í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu og að ráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á þeim kafla á næsta löggjafarþingi.

Dómar Mannréttindadómstólsins gegn íslenska ríkinu eru orðnir vandræðalega margir og mál er að linni þannig að almennt var nokkuð vel tekið í þá hugmynd að slík endurskoðun færi fram. Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru þeirrar skoðunar að þetta væri nauðsynleg og tímabær endurskoðun og hið sama átti við innan nefndarinnar.

Af því að tíminn líður stundum og hlutir gerast óháð því sem á sér stað innan veggja þingsins hittist svo skemmtilega á að eftir að mælt hafði verið fyrir þessari tillögu skipaði forsætisráðherra nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Þar með sá allsherjar- og menntamálanefnd sér leik á borði að nýta þá vinnu þar sem verkefni nefndarinnar skarast að nokkru leyti við það sem þessi tillaga gengur út á. Nefndin hefur m.a. það verkefni að fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp sem þekkjast í daglegu tali sem IMMI-frumvörpin sem eiga rætur að rekja til Birgittu Jónsdóttur og Pírata innan veggja þingsins. Nefndin á að hafa nokkuð frjálsar hendur, en það sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til er að sú tillaga til þingsályktunar sem hér liggur fyrir verði fóður í þá vinnu nefndarinnar, verði í raun viðbót við hlutverk nefndarinnar. Við leggjum því til að þingsályktunartillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að tryggja að endurskoðun XXV. kafla hegningarlaganna verði verkefni þeirrar nefndar sem skipuð hefur verið um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsisins.

Af því að tíminn er ekki bara þeim eiginleika gæddur að líða heldur líka þeim eiginleika að koma oft á sama stað niður hittist svo vel á að formaður nefndar forsætisráðherra, Eiríkur Jónsson, prófessor í lögum, átti fyrir 12 árum stutta viðdvöl á þingi sem varaþingmaður og lagði þá fram, á 133. löggjafarþingi, tillögu til þingsályktunar um afnám refsiákvæða vegna ærumeiðinga sem efnislega er samhljóða þeirri tillögu sem við erum hér að leggja til að afhenda hinum sama Eiríki Jónssyni til góðfúslegrar afgreiðslu í störfum sínum fyrir hönd forsætisráðherra.

Ég vænti þess að með þessari afgreiðslu þingsins verði málinu ekki bara komið í góðar hendur, heldur þær réttu, komið aftur til upprunans. Ég bíð þess spenntur að sjá hvað kemur út úr störfum nefndar forsætisráðherra á haustdögum þegar stefnt er að því að nefndin skili tillögum sínum í frumvarpsformi.

Undir álit allsherjar- og menntamálanefndar ritar öll nefndin, auk þess sem hér stendur eru það Páll Magnússon, Jón Steindór Valdimarsson, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Anna Kolbrún Árnadóttir sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins skrifar undir álitið samkvæmt heimild starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Nefndin leggur sem sagt til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnar að lokinni umræðunni.