148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[17:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Seinni spurningin sneri að nefndinni sem hv. þingmaður svaraði í rauninni í byrjun andsvarsins. Nefndin og hv. þingmaður fengu sem sagt staðfestingu fyrir því að þessi nefnd þarna sem er með óskilgreint erindisbréf myndi taka þetta mál fyrir. Gott, því er svarað.

Þingmaðurinn ítrekar þá skoðun sína að verið sé að, kannski ekki stunda það, en þess séu dæmi að menn haldi kærum til streitu í krafti peninga o.s.frv. Það eru að mínu viti býsna miklar ásakanir ef um ásökun er að ræða, en ég fagna því hins vegar ef þingmaðurinn og hugsanlega fleiri skýra það þegar mál þeirra verður tekið til umfjöllunar.

Ég stelst aðeins inn í það mál með því að spyrja hvort það þingmál taki á áhyggjum hv. þingmanns. Nú verð ég að viðurkenna að ég man ekki alveg hvernig það leit út vegna þess að ég lít svo á að enginn maður, alveg sama hvað hann gerir, geti verið undanþeginn því að bera einhverja ábyrgð á því sem hann segir, skrifar eða gerir.

Við þurfum hins vegar að fara mjög varlega og við verðum að passa að ekki sé verið að þagga niður í fjölmiðlum og fjölmiðlamönnum. Algjörlega. Við erum sammála um það. Slíkt má ekki gerast. En við megum samt að mínu viti ekki heldur taka þann rétt af hverjum og einum að sækja rétt sinn telji hann á sér brotið, telji hann farið inn á sitt einkalíf eða að einhver hafi vegið þannig að æru hans að hann telji sig hafa hlotið nokkurn skaða af. Við megum ekki koma í veg fyrir að slíkt geti átt sér stað og að menn geti sótt rétt sinn, alveg sama gegn hverjum það er.