148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér áfram þá hugmynd og tillögu um að færa niður kosningaaldurinn þó að það muni vissulega ekki hafa áhrif á þær kosningar sem nú eru. Á sínum tíma lagði ég fram breytingartillögu sem einhvers konar málamiðlun í þessu máli öllu saman, en nú lít ég svo á að henni hafi verið hafnað með tillögu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés og dreg því tillögu mína til baka. Ég held hins vegar að málið sé allt á sama stað og ég skildi við það í ræðu minni fyrir nokkrum vikum, þ.e. að gefa þurfi því meiri tíma, að það þurfi að kortleggja betur hvernig við ætlum að innleiða þessa breytingu því að þetta er vitanlega töluverð breyting. Ég hygg að við þekkjum öll og eigum jafnvel börn sem vilja fara að kjósa; við viljum gjarna að þau fái þennan rétt, en ég held að það sé mikilvægt að eyða tíma í að fræða, kenna og upplýsa hvað í þessu felst. Það kom hér fram að skólakerfið taldi sig tilbúið til að takast á við það. Ég leyfi mér að efast um það. Ég leyfi mér að halda að það þurfi meiri tíma en kom hér fram í umræðum um málið á fyrri stigum. En það er bara mín skoðun. Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér í því.

Ég held að það fari vel á því að ríkisstjórnin fái málið í fangið til umfjöllunar því að þetta er vitanlega gríðarstórt mál. Inn í þetta blandast svo vitanlega hlutir sem hafa komið fram hér í umræðu um málið, t.d. með mismunandi skilaboð sem við erum að senda unga fólkinu varðandi kosningaaldurinn, varðandi aldur til að kaupa áfengi, taka bílpróf, fara í ríkið og allt þetta. Það er alveg þess virði að eyða smátíma í að velta því fyrir sér hvort samræma eigi þetta allt saman, eða hvort við eigum að koma með fleiri hugmyndir inn í þetta allt saman, eins og ég held að sé raunin með þessari tillögu um 16 ára kosningaaldur. Ég styð eindregið þá tillögu að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar.

Það er líka annað sem er mikilvægt að svara. Það getur vel verið að menn komi hingað og segi að það sé alveg nægur tími til þess, eftir að búið verður að samþykkja málið. Það getur vel verið. En ef menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekki sniðugt að ganga þessa vegferð út af reynslu annarra o.s.frv. þarf að koma með mál hér inn og draga málið til baka sem ég held að sé ekki sniðugt. Ég vil frekar að menn gefi sér góðan tíma til þess að þróa málið og þroska, vinna í því. Ég get alveg séð fyrir mér að ríkisstjórn sem hefur talað mjög hátt um að styrkja Alþingi, talað um lýðræði og þessi fínu orð öll sömul, muni leggja býsna mikinn metnað í að vinna þetta mál betur og láta það þroskast vel.

Ég get alveg séð fyrir mér að forsætisráðherra myndi taka þetta mál sérstaklega í fangið og bera það áfram á þeim forsendum sem ég nefndi hér.

Það voru skiptar skoðanir um þetta, ekki bara í þingsal heldur líka úti í samfélaginu. Það er eðlilegt að horfa til þess og hlusta á það. Unga fólkið sumt hvert eðlilega bíður eftir þessu. Aðrir hafa minni áhuga á því að fá þennan rétt. Þess vegna segi ég eins og ég sagði áður, og segi enn og aftur, að það þarf að kynna fyrir fólki í hverju þetta felst.

Ég fékk síðast í morgun, held ég hafi verið, skilaboð frá syni mínum sem spurði kátur: Fæ ég þá að kjósa? Ég þurfti náttúrlega að segja: Nei, því miður vinur, þú færð ekki að kjósa núna. En auðvitað fær hann þá að kjósa næst, hann verður orðinn 18 ára þá. En sá ágæti drengur hefur haft gríðarlega mikinn áhuga á þessu og telur sig reiðubúinn til að mynda sér skoðun og kjósa. Ég er ekkert að draga það í efa. En ég er ekki endilega viss um að allir hafi sýnt þessum vettvangi jafn mikinn áhuga og fylgst jafn mikið með. Mér finnst það eiginlega skylda að við reynum að fá börnin okkar til þess að átta sig á því um hvað stjórnmál snúast, hvað við erum að gera með því að mæta á kjörstað og kjósa.

Með þessu er ég ekki að tala niður eða gera lítið úr unga fólkinu, alls ekki. Ég vil bara að það sé tilbúið og það viti hvað bíður þess, hvað ákvörðunin þýðir þegar þau stíga inn í kjörklefann. Svo er náttúrlega í sjálfu sér hálfgalið að við séum á víð og dreif á einhverju aldursbili með réttindi fólks, hvað það megi gera og hvað ekki. Það er að mínu viti alveg snargalið.