148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Nú er alveg augljóst að skoðanir eru skiptar um málið, bæði hér í þingsal og eins utan þinghússins. Það hefur komið ágætlega fram í mjög málefnalegum ræðum í þessu máli fram að þessu. Ég er að velta því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti fallist á þá skoðun mína að betra sé að málið fari til ríkisstjórnar til frekari vinnslu, þ.e. að ríkisstjórnin taki málið upp á sína arma, setji það í viðunandi ferli, eigi samráð, útbúi námsgögn þess vegna og slíkt; útvegi fjármagn í málið og komi síðan með það fullbúið og tilbúið væntanlega hér inn á þing vel fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, á þessu kjörtímabili meina ég.

Ástæða þess að ég segi þetta er að ég held að það sé í raun betra, úr því að skoðanir eru svona skiptar um málið, að gera það með þessum hætti. Ef við förum þá leið að samþykkja málið núna og svo líða fjögur ár þar til á að kjósa, þar til á að móta málið, gæti eitthvað komið upp á á þeirri vegferð. Menn gætu orðið sammála um að það sé bara alls ekki rétt að gera þetta, það hafi verið mistök, þingið hefði átt að hugsa málið örlítið betur. Þá er verra að koma með frumvarp og draga málið til baka eða breyta því. Inn í þessa vinnu myndi ég persónulega telja að ríkisstjórnin ætti að taka allan pakkann, með samræmingu á þessum heimildum, þessum aldri, sem er á víð og dreif.