148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir miður að hv. þingmaður skuli ekki vera sammála því að það sé betri leið að fela ríkisstjórninni að taka málið í fangið. Ég velti fyrir mér hvort hann treysti því þá ekki að ríkisstjórnin klári málið og leggi það tímanlega fyrir þingið og fullbúið. Mér finnst svolítið sérstakt að bera ekki meira traust til ríkisstjórnarinnar varðandi þetta mál.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að það er ekkert að því að Alþingi takist á um mál. Við eigum að sjálfsögðu að vera hér og takast á um stefnur, um skoðanir okkar eða hvernig við leysum málið. Hér er að mínu viti um að ræða svolítið sérstakt mál, stórmál, prinsippmál, er varðar kosningaaldur og kosningar til sveitarstjórna. Mér finnst meiri bragur á ef þetta gæti orðið eitt af þeim fjölmörgu málum sem við yrðum sammála um. Og yfirleitt er það svo að við erum sammála í þingsal þegar við afgreiðum mál, oftar en ekki. Þetta er hátíðlegt mál, við skulum orða það þannig, og betri bragur á því að ná utan um það með þessum hætti.

Ég velti fyrir mér hvers vegna hv. þingmaður geti ekki fallist á að ríkisstjórnin geti undirbúið málið betur og komið með það vel unnið og náð um það sátt áður en það yrði endanlega afgreitt frá Alþingi. Ég vil gjarnan spyrja þingmanninn hvort hann sjái ekki einhver gæði eða kosti í því að nota ferðina, ef það má orða það þannig, og taka umræðu um sjálfræðisaldurinn, bílprófið, áfengiskaupin og allt þetta þannig að þetta liggi allt á svipuðu eða sama róli. Ég tel að ríkisstjórnin væri best til þess fallin að taka þennan heildarpakka í fangið og þar á meðal þetta mál og þroska þannig að þegar komið verður að næstu sveitarstjórnarkosningum verði Alþingi búið að samþykkja samhljóða, vonandi, að þetta mál verði að lögum.