148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var líka að spyrja um var ef svo óheppilega vildi til að niðurstaðan yrði sú að það hefði verið rangt að setja þessi lög þá þyrftum við að afnema þau.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það geti verið skynsamlegt að fólk öðlist réttindi í ákveðnum skrefum. Þá velti ég fyrir mér því að að taka þátt í kosningum, að velja sér fólk í fulltrúalýðræðiskerfinu okkar til þess að gæta hagsmuna sinna, setja sig inn í stefnumálin, setja traust sitt á frambjóðanda, setja sig inn í það sem þarf að gera til þess að geta valið, til að geta sagt: Ég kýs þennan mann, þessa stefnu, þennan flokk. Ég velti fyrir mér með tilliti til þroska og alls sem hv. þingmaður nefndi, hvort þetta sá þá lægsti „levelinn“ í rauninni. Eigum við að horfa á þetta þannig? Væri ekki nær að flytja mörkin ofar og segja: Þetta er það stór ákvörðun, svo mikilvægt mál, (Forseti hringir.) að fólk þarf að vera búið að lifa aðeins lífinu lengur til þess að geta tekið slíka ákvörðun? Ég horfi (Forseti hringir.) t.d. á bílpróf eða brennivín og allt þetta.