148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

loftslagsmál og samgöngur.

[13:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að nýútgefin skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar sé kolsvört. Hún er svo svört að við höfum ekki efni á að að ræða hana úr skotgröfum heldur verðum við að ná breiðri sátt innan þingsins um aðgerðir í þessum mikilvæga málaflokki.

Það er ljóst að markmið í Parísarsamkomulaginu munu ekki duga og því verða þjóðir að taka á sig auknar skuldbindingar — og Ísland nær ekki einu sinni þessu markmiði. Útstreymið mun beinlínis aukast um allt að 99% til ársins 2030 nema ráðist verði í róttækar aðgerðir. Í skýrslunni eru nefndir þrír aðilar sem þykja hafa staðið sig sérstaklega vel og er ríkið ekki á meðal þeirra. Það eru Vegagerðin, Landsvirkjun og Reykjavíkurborg.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru nú um 64% landsmanna og áætlað að það verði fjölgun upp á 70.000 íbúa til ársins 2040, fyrir utan auðvitað þær 2 milljónir ferðamanna sem ferðast hér um árlega. Það er því brýnt að leysa samgöngumál höfuðborgarsvæðisins sérstaklega. Losun jarðefnaeldsneytis er nefnilega langstærsti áhrifaþáttur loftslagsbreytinga og mannvirkjagerð er líka stór sökudólgur. Þétting byggðar og borgarlínan eru stór þáttur í baráttu Reykjavíkurborgar gegn loftslagsbreytingum og það er beinlínis sérkennilegt að ekki komi fram ótvíræðari stuðningur ríkisstjórnarinnar við áform borgarinnar þegar kemur að þeim risamálum.

Markmiðum stjórnarsáttmálans um loftslagsmál verður ekki náð nema gripið verði til stórfelldra aðgerða í almenningssamgöngum. Er hæstv. ráðherra sammála mér um það? Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin styðja Reykjavík og önnur bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að þessum áformum? Ætla stjórnvöld að taka þátt í fjármögnun stærsta umhverfisverkefnis Íslandssögunnar, borgarlínunnar? (Gripið fram í: Nei.) Og finnst hæstv. fjármálaráðherra fjármálaáætlun vera nógu skýr þegar kemur að þessu?