148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

loftslagsmál og samgöngur.

[13:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég bið hæstv. ráðherra afsökunar á mismælunum en verð að viðurkenna að ég myndi sofa talsvert rórra ef hann væri fjármálaráðherra. Það er ágætt að flagga háleitum markmiðum. Við náum ekki einu sinni þessum 40% og hvað þá að við getum stefnt með einhverri vissu að kolefnishlutleysi, en hér er ég að ræða um borgarlínuna, ég er að tala um að gera hið byggða umhverfi hagkvæmara og skilvirkara því að þar eigum við mest að sækja þegar kemur að loftslagsmálum. Því spyr ég og ég vil fá svör við því:

Hvaða fjármunum á að ráðstafa í þetta verkefni? Hversu hárri upphæð og hvernig mun hún dreifast á tímabilið?

Það er mjög óljóst í fjármálaáætluninni og reyndar allar yfirlýsingar mjög óljósar. En við þurfum að fá svar við þessu mikilvægasta verkefni samtímans í loftslagsmálum.