148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

Evrópusambandið og skýrsla ráðherra um EES-samninginn.

[13:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Það er nú einmitt þess vegna sem ég vek athygli á þessu. Hæstv. ráðherra hefur verið býsna skýr fram að þessu í sínum málflutningi. Þess vegna velti ég fyrir mér hvernig svona orðaleikur eða hvað þetta kallast, þar sem talað er um algert hlé, ratar inn í skýrslu ráðherra. Maður veltir fyrir sér hvort þessi texti hafi óvart runnið fram hjá augum ráðherrans þegar verið var að undirbúa skýrsluna í stað þess að þetta sé einhvers konar stefnubreyting. Ég ætla að leyfa mér að túlka það þannig að hæstv. ráðherra sé enn þá þeirrar skoðunar að Íslandi sé best borgið utan Evrópusambandsins.

Við hljótum hins vegar að velta fyrir okkur hvort það sé ekki óheppilegt þegar ráðherra kemur með skýrslu inn í Alþingi þar sem velt er upp orðum sem geta ýtt undir aðrar hugmyndir eins og orðin algert hlé, nema það sé til einhvers konar önnur túlkun á því, ég reyndar gáði ekki í íslenska orðabók hvað algert hlé þýðir Ég veit ekki hvort það sé til skilgreining á því þar. Ég hélt að hlé væri bara hlé.

Ég túlka því orð ráðherra úr þessum ræðustól þannig að þessi ríkisstjórn sé sama sinnis og sú fyrri, að við eigum ekkert erindi inn í Evrópusambandið og þetta orðalag hafi einhvern veginn smitast inn frá embættismönnum ráðuneytisins.